Ef ég væri jólasveinn...
Mikið er um að vera hjá Leikfélagi Akureyrar þessa dagana. Um síðustu helgi var jólaævintýrið "Ef ég
væri jólasveinn" frumsýnt og skilaði brosandi og sönglandi leikhúsgestum á öllum aldri út í desemberhúmið. Einungis eru
fjórar sýningar eftir af leikritinu: sunnudaginn 2. desember kl. 14 og 16 og sunnudaginn 9. desember kl. 14 og 16.
"Leigumorðinginn" hefur fengið afbragðs viðtökur frá leikhúsgestum sem og gagnrýnendum. Einungis er ein
sýning eftir, föstudagskvöldið 30. nóvember kl. 20. Á vefnum akureyri.net segir m.a. um verkið: "Ef þú elskar að hlæja og hefur gaman af
allskonar uppátækjum uppi á leiksviði, þá er Leigumorðinginn leikrit sem þú þarft að sjá."
Þann 6. desember mun Akureyrarakademían, í samstarfi við Leikfélag Akureyrar og Minjasafn Akureyrar, flytja
alþýðufyrirlestur með leikrænu ívafi. Margrét Guðmundsdóttir, sagnfræðingur, mun beina kastljósinu að kjörum
alþýðukvenna á Íslandi í byrjun 20. aldar, með aðstoð leikara LA. Aðgangseyrir er aðeins 2.000 krónur og rennur óskiptur til
Mæðrastyrksnefndar.
Leikhópurinn Á Senunni mun færa Akureyringum hina heillandi sýningu "Ævintýrið um Augastein" eftir
Felix Bergsson laugardaginn 15. desember. Tvær sýningar verða þennan dag kl. 13 og 15. Verkið er ætlað börnum 2ja-10 ára, tekur um eina klukkustund
í sýningu og er ekkert hlé. Sveinn Haraldsson segir um verkið: "Hér er margt sem gleður augu og eyru, ef einhver hefur einhvern tímann átt erfitt
með að komast til botns í gátunni um hvernig gömlu, hrekkjóttu sauðalitajólasveinarnir urðu að hinum gjafmildu öðlingum sem þeir
eru í dag, þarf sá hinn sami að drífa sig í leikhús."
Allar nánari upplýsingar í síma 4 600 200, www.leikfelag.is og á
netfanginu midasala@leikfelag.is.
Miðasalan er opin kl. 13-17 virka daga og er opnuð þremur tímum fyrir sýningu um helgar.