Börn og unglingar mættu borða meira grænmeti og ávexti samkvæmt Skólapúlsinum. Ljósmynd af vef landlæknis sem ráðleggur um mataræði.
97% foreldra á Akureyri telja að barnið sitt fái hollt fæði í leikskólanum, samkvæmt nýjustu upplýsingum úr Skólapúlsinum. Niðurstöður benda þó til þess að börn og unglingar í eldri bekkjum grunnskóla Akureyrar mættu borða meira af ávöxtum og grænmeti.
Skólapúlsinn er annars vegar nemendakönnun sem lögð er fyrir börn í 6.-10. bekk á hverju ári og hins vegar foreldrakönnun sem lögð er fyrir foreldra leik- og grunnskólabarna annað hvert ár.
Samkvæmt niðurstöðum ársins 2020 eru 74% foreldra barna í grunnskólum frekar eða mjög ánægðir með skólamáltíðir, en eins og áður segir telja nær allir foreldrar að barnið sitt fái hollt fæði í leikskólanum.
Tækifæri til að auka grænmetis- og ávaxtaneyslu
Þegar nemendur á aldrinum 11-16 ára eru spurðir um grænmetis- og ávaxtaneyslu kemur í ljós að 22% borða grænmeti tvisvar eða oftar á dag og 32% borða tvo eða fleiri ávexti á dag. Hlutfallið hefur frekar lækkað á undanförnum árum, samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar.
Ráðlagt er af embætti landlæknis að borða fimm skammta af grænmeti og ávöxtum á dag eða minnst 500g samtals. Einn skammtur getur til dæmis verið stór gulrót eða tómatur, meðalstórt epli eða lítill banani. Jafnvel þótt margir borði grænmeti og ávexti daglega, samkvæmt upplýsingum úr Skólapúlsinum, mættu flestir auka neysluna verulega.
Það er sameiginlegt verkefni heimilis og skóla að stuðla að hollu mataræði barna og unglinga og auka hlut grænmetis og ávaxta.