Föstudaginn 1. mars verður leikverkið Kaktusinn eftir þýska rithöfundinn og mannréttindalögfræðinginn Juli Zeh frumsýnt. Verkið er
magnað og skoplegt ólíkindaverk um ótta og öryggisfíkn, raunveruleika og skáldskap.
Verkið gerist á lögreglustöð í Frankfurt. Ungur tyrknesk-ættaður lögregluþjónn, Cem, hefur aðstoðað
leynilögreglumanninn Jochen við að handtaka meintan hryðjuverkamann. Hryðjuverkamaðurinn sem rekur rætur sínar til Kaliforníu og gengur undir nafninu
Carnegie Gigantae er hins vegar grunsamlega líkur stórum kaktusi. Jochen heldur því fram að hann hafi aflað gagna sem sanni svo ekki verði um villst að
Kaliforníubúinn umræddi sé hættulegur glæpamaður og hefur því samband við yfirmann sinn, frú Schmidt, til þess að
láta hana vita af handtökunni. Þeir félagarnir reyna síðan ýmsar hefðbundar yfirheyrsluaðferðir, en hinn ókunni er þögull sem
gröfin. Skömmu síðar rekst Súsí, ung lögreglukona, inn á skrifstofuna, og verður þar með hluteigandi að málinu, og þegar
frú Schmidt birtist tekur atburðarásin óvænta og afdrifaríka stefnu.
Leikarar eru: Aðalbjörg Árnadóttir, Anna Gunndís Guðmundsdóttir, Einar Aðalsteinsson og Hannes Óli Ágústsson. Leikstjórn er
í höndum Ragnheiðar Skúladóttur, leikhússtjóra LA, Tinna Ottesen hannar sviðsmynd og búninga, Jóhann Bjarni Pálmason er
hönnuður lýsingar og Þóroddur Ingvarsson sér um hljóðmynd.