Kvöldverðarklúbburinn

Hamingjulandið mitt.
Hamingjulandið mitt.

Erlendum blaðamönnum sem sérhæfa sig í umfjöllum um mat og matarmenningu var boðið til landsins af Íslandsstofu nú undir lok mánaðarins. Þeir tóku þátt í Food & Fun hátíðinni í Reykjavík en var einnig boðið að heimsækja nokkra staði úti á landi þar sem skipulagðir voru svokallaðir kvöldverðarklúbbar (Supper Club) en það fyrirbæri er að ryðja sér til rúms víða um lönd.

Föstudaginn 1. mars fór fólkið í skoðunarferð um allan Eyjafjörð þar sem það kynnti sér mat úr héraði en á fimmtudagskvöld var haldinn kvöldverðarklúbbur í Hafnarvitanum á Oddeyrarbryggju. Þangað komu erlendir blaðamenn og sjónvarpsupptökulið frá Íslandsstofu auk þess sem erlendum gestum af hótelum bæjarins var boðið ásamt heimamönnum í um 50 manna veislu þar sem matur úr Eyjafirði var kynntur.

Tilgangur heimsóknarinnar var að fá aukna umfjöllun í erlendum fjölmiðlum um Akureyri sem spennandi áfangastað fyrir ferðamenn með áherslu á ferskan og frábæran mat sem hér er á boðstólum um allan fjörð.

Matreiðslumenn frá veitingastöðunum Bautanum, Rub23 og Strikinu sáu um matseldina og var meðal annars boðið upp á bláskel úr Hrísey, svartfugl úr Grímsey, glænýjan þorsk, lambakjöt og heilgrillað nautalæri og að lokum kindaís og skyrís frá Holtseli. Kaldi og Vífilfell buðu upp á drykki sem framleiddir eru í Eyjafirði.

Jólasveinarnir úr Dimmuborgum skemmtu gestum með uppátækjum sínum, Kristján Edelstein lék á gítarinn og sönghópurinn Hymnodia flutti nokkur lög. Markaðsskrifstofa Norðurlands og Akureyrarstofa stóðu að viðburðinum hér fyrir norðan í samvinnu við Íslandsstofu.

Myndirnar að neðan tók Ragnar Hólm í og við Hafnarvitann á fimmtudagskvöldið. Smellið á myndirnar til að sjá stærri útgáfur og fletta á milli þeirra.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan