Kórahátíð í Hofi

Menningarhúsið Hof í samstarfi við Norðurorku, Hótel Kea, Landsvirkjun og Afmælisnefnd Akureyrar stendur fyrir Kórahátíð í Hofi á morgun, laugardag. Kórar af öllum stærðum og gerðum víðsvegar af Norðurlandi hafa skráð sig til leiks og í tilefni 150 ára afmælis Akureyrar leggja kórarnir áherslu á tónlist tengda Akureyri. 

Kórsöngurinn hefst kl. 10.30 í aðalsal Hofs, Hamraborg. Kórarnir koma fram einn af öðrum til kl. 15.30 en þá sameinast þeir allir undir stjórn Eyþórs Inga Jónssonar og flytja þrjú lög, þar af tvö eftir heiðurstónskáld hátíðarinnar, Birgi Helgason. Kynnir verður Pétur Halldórsson, útvarpsmaður. Í miðasölu Hofs verður til sölu ýmis varningur tengdur þeim kórum sem taka þátt í hátíðinni. 

Á morgun verður einnig boðið upp á fyrirlestra og námskeið í Hofi. Þórhallur Guðmundsson, sjúkraþjálfari frá Eflingu, flytur fyrirlestur um kórstöðu og líkamsbeitingu, Margrét Pálmadóttir, kórstjóri, flytur erindi um kórastarf undir yfirskriftinni „Að vera í kór“ og Hafdís Árnadóttir, listrænn stjórnandi Kramhússins, heldur námskeið í leikfimi í sambatakti. 

Dagskrá hátíðarinnar er öllum opin og aðgangur er ókeypis. 

Nánari upplýsingar um niðurröðun atriða má sjá  menningarhus.is.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan