Fjölskyldustemning mun ríkja sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 25. apríl frá kl. 14-16 á Minjasafninu á Akureyri.
Blásarasveit Tónlistaskólans á Akureyri blæs sumarið inn með lúðraþyt. Leikfélag Menntaskólans á Akureyri
sýnir brot úr uppfærslu sinni á söngleiknum Þrek og tár eftir Ólaf Hauk Símonarson. Furðuhluti, ekki þó fljúgandi,
má sjá á safninu þennan dag. Þeir munu án efa valda miklum heilabrotum hjá ungum sem öldnum. Kynslóðirnar geta einnig nýtt
tækifærið til ganga um ljósmyndasýninguna MANSTU – vetrarbærinn Akureyri um leið og þær fagna sumri þótt snjókornin falli
ef til vill úti. Börn og fullorðnir geta hoppað sér til hita á stéttinni með því að húlla, tvista, sippa og blása
sápukúlur. Komdu og takt þátt í ratleik á Minjasafnssvæðinu.
Nonnahús verður opið í tilefni dagsins. Þar verða leikarar Leikfélags Akureyrar með upplestur.
Það verður sem sagt nóg um að vera og því upplagt fyrir mömmur og pabba, ömmur og afa, langömmur og langafa, frænkur og frændur
að gera sér glaðan dag með börnunum á Minjasafninu á Akureyri og í Nonnahúsi. STOÐvinir safnsins bjóða upp á kakó og
lummur. Enginn aðgangseyrir er á barnaskemmtun Minjasafnsins.
Sama dag kl. 13.30 verður gengið fylktu liði frá Laxdalshúsi að Nonnahúsi og um leið verða "bækurnar á ljósastaurunum" lesnar en
járnbækur á ljósastaurum á leiðinni frá Amtsbókasafninu að Nonnahúsi hafa vakið mikla athygli vegfarenda. Á síðum
bókanna má finna brot úr völdum íslenskum barnabókum. Þannig getur fjölskyldan sameinað útivist og lestur. Bækurnar eru settar upp
af Barnabókasetri Íslands sem hefur það að markmiði sínu að efla bóklestur barna og unglinga.
Allir eru hjartanlega velkomnir!