Kertin framleidd af miklum móð hjá PBI

Hjá PBI fást kerti af öllum stærðum og gerðum og í öllum regnbogans litum.
Hjá PBI fást kerti af öllum stærðum og gerðum og í öllum regnbogans litum.

Starfsfólk Plastiðjunnar Bjargs-Iðjulundar (PBI) er nú önnum kafið við að dýfa veislukertum og steypa sín margrómuðu útikerti sem fást í verslunum Bónus á Akureyri en er einnig hægt að kaupa í verslun PBI að Furuvöllum 1.

Eins og víða annars staðar þá tekur starfsemin hjá PBI nokkurn kipp í aðdraganda jólanna. Þá er nóg að gera í kertaframleiðslunni en kerti sem framleidd eru hjá PBI eru gerð úr 100% brennsluvaxi og svo lituð. Það gerir það að verkum að brennslutími kertanna er mjög langur og kertin haldast falleg þar sem lítið sem ekkert rennur til á þeim.

Plastiðjan Bjarg - Iðjulundur er vinnustaður á vegum Akureyrarbæjar þar sem áherslan er lögð á starfsendurhæfingu, starfsþjálfun og að skapa vinnutækifæri fyrir fólk með skerta starfsgetu af ýmsum ástæðum. Starfsfólk PBI framleiðir auk kertanna m.a. raflagnaefni, búfjármerki, mjólkursíur, diskaþurrkur, klúta og ýmis konar skilti.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan