Kaupvangsstræti verður lokað sitt hvoru megin við gangbrautina norðan við Hótel KEA á morgun, þriðjudaginn 16. júní milli kl. 9 og 16, vegna málningarvinnu.
Ungmenni á aldrinum 14-16 ára sem eru í vinnuhóp í Rósenborg á vegum Vinnuskólans ætla að mála gangbrautina í regnbogalitunum.
Hugmyndin er komin frá þeim sjálfum og er ein af mörgum spennandi tillögum þeirra til þess að lífga upp á bæinn okkar í sumar. Fyrirmyndir að regnbogagötum eru til dæmis í Reykjavík og á Seyðisfirði og hafa vakið mikla athygli.
Ekki verður hægt að keyra yfir umrædda gangbraut (sjá mynd) meðan á þessari vinnu stendur.