Jónsmessan á Akureyri

Allir geta velt sér upp úr dögginni á Jónsmessunótt en laugardaginn 23. júní verður ýmislegt fleira á boðstólnum sem vakið getur líkama og sál.

Í Kjarnaskógi hefst dagskrá kl. 20.00 með opnun sýningarinnar “Andar í skóginum” en að sýningunni stendur hópur nemenda úr VMA í samstarfi við George Hollanders og Skógræktarfélag Eyfirðinga.  Sýningin,  sem styrkt er af Menningarráði Eyþings, stendur í allt sumar.

Boðið verður upp á skógargöngu sem hefst kl. 20.30 þar sem leitað verður að anda skógarins og boðið upp á rjúkandi ketilkaffi að skógarmanna sið að lokinni göngu. Sett verður upp taflmót sem einnig hefst kl. 20.30. Allir viðburðirnir verða á efra svæðinu í nágrenni sólúrsins.

Frá Torfunefsbryggju við miðbæ Akureyrar verður boðið upp á siglingu með eikarbátnum Húna II undir yfirskriftinni “Jónsmessudraumur á Eyjafirði”.  Hefst siglingin kl. 23.00 og er áætlaður komutími til baka um kl. 02.30.

Þá býður Ferðafélag Akureyrar upp á Jónsmessugöngu á Uppsalahnjúk og hefst ferðin frá skrifstofu félagsins kl. 21.00.

 

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan