Vinnuhópur er að skoða ýmsa fleti á samgöngumálum innanbæjar, m.a. hvernig best verður að leysa umferðarmál að og frá Naustahverfi. Starfsmenn VST á Akureyri eru að skoða hvort jarðgöng geti verið raunhæfur möguleiki til að leysa umferðarmálin, en ef af verður yrðu göngin um 600 metra löng. Gangamunni yrði við Hafnarstræti, skammt norðan við Samkomuhús bæjarins, þaðan inn í brekkuna og undir Lystigarðinn og þaðan syðst að Tónatröð, neðan við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Þaðan kæmi svo vegur upp að Þórunnarstræti.
Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri, sagði flest benda til að núverandi vegtengingar myndu ekki anna þeirri umferð sem gera má ráð fyrir að verði á milli þessara bæjarhluta er fram líða stundir. "Annars hef ég nú stundum haldið því fram að við mættum vera þolinmóðari í umferðinni. Ég sé ekki allan mun á að bíða í tvær eða fimm mínútur, það breytir engu. Þetta eru ekki slíkar vegalengdir eða tími sem menn eru að glíma við hér," sagði Kristján Þór. Hann sagði að sá kostur yrði á endanum ofan á sem hagkvæmastur þætti og skilaði því sem til væri ætlast.
Frétt af www.mbl.is