Hulduheimar Kot sem áður hét Holtakot. Mynd: Bjarki Brynjólfsson.
Nú í byrjun maímánaðar hefur foreldrum langflestra barna sem fædd eru fyrir 31. ágúst 2021 verið boðið pláss fyrir þau í leikskólum bæjarins fyrir haustið 2022. Gera má ráð fyrir að alls verði rúmlega 980 nemendur í leikskólunum næsta vetur. Af þeim eru rúmlega 160 börn af yngsta árgangi leikskólabarna.
Börn úr yngsta árgangi leikskólabarna eru innrituð í alla leikskóla bæjarins. Flest börnin úr þeim árgangi eru innrituð í Tröllaborgir/Árholt, Klappir og Hulduheima. Til að þetta gæti orðið að veruleika var tekin sú ákvörðun að breyta Hulduheimum Koti í yngri barna skóla. Komandi vetur verða þar börn af þremur yngstu árgöngum leikskólabarna.
Nú eru 12 dagforeldrar starfandi á Akureyri. Að auki hafa borist umsóknir einstaklinga sem stefna að því að taka til starfa í sumar eða haustið 2022.
Bæjaryfirvöld á Akureyri hafa samþykkt viðbótarfjárveitingu til málaflokks daggæslunnar sem m.a. verður nýtt til að greiða verðandi dagforeldrum styrk, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, til að auðvelda þeim að afla sér þess búnaðar sem til þarf fyrir daggæslu í heimahúsi. Verið er að vinna reglur um styrkveitingarnar og verða þær auglýstar á allra næstu dögum. Jafnframt er stefnt að því að halda opinn kynningarfund fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér starfsumhverfi dagforeldra. Sá fundur verður auglýstur fljótlega.