Hymnodia setur heimsmet

Í tilefni tíu ára afmælis kórsins Hymnodiu hyggjast söngvararnir setja heimsmet, "eyfirskt heimsmet" í það minnsta, með því að halda tíu tónleika á tíu klukkustundum í tíu kirkjum laugardaginn 1. júní. Ekki hafa fundist heimildir um að þetta hafi verið gert áður hér á landi og þótt víðar væri leitað.

13.00 Laufáskirkja
14.00 Svalbarðskirkja
15.00 Kaupangskirkja
16.00 Munkaþverárkirkja
17.00 Minjasafnskirkjan
18.00 Lögmannshlíðarkirkja
19.00 Möðruvallaklausturskirkja
20.00 Stærra-Árskógskirkja
21.00 Vallakirkja
22.00 Ólafsfjarðarkirkja

Tónleikarnir verða 25 mínútna langir en kórinn syngur tvær efnisskrár til skiptis. Aðgöngu­miði í einni kirkju gildir í allar sem eftir eru og fólk getur því heyrt alla efnisskrána með því að mæta í tvær kirkjur eða fleiri. Tónleikarnir í Ólafsfjarðarkirkju gætu orðið eitthvað lengri ef þrek kórsins leyfir og stemmningin er góð. Sungin verða alþekkt kórlög í bland við lög frá ýmsum löndum, ný og gömul.

Með þessu uppátæki fagnar Hymnodia tíu ára afmæli kórsins en safnar líka aurum til að gefa út jólaplötu sem kemur út í haust. Hymnodia er þekkt fyrir alls kyns uppátæki, tónlistarspuna og gjörninga jafnt sem fágaða sígilda kórtónlist. Kórinn söng Stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands sem vakti athygli en misjafnar tilfinningar, hann hefur komið fram með Skálmöld, sett upp óperu, haldið glæsilega barokktónleika og tónleika með rómantískum kórverkum og haldið spunatónleika á bílaverkstæði og gamalli síldarverksmiðju svo eitthvað sé nefnt.

Nú æfir Hymnodia blöndu af alþýðutónlist og kórverkum frá ýmsum löndum fyrir tónlistarskemmtun sem haldin verður á haustmánuðum víða um Norðurland. Þar sýna kórfélagar á sér nýjar hliðar, leika á alls kyns óvenjuleg hljóðfæri, segja sögur og fleira. Á næsta vetri eru svo nokkur stór verkefni í bígerð, nýstárlegur flutningur á einu mesta stórvirki Bachs, útgáfutónleikar og spennandi viðburðir sem of snemmt er að segja frá nú. Hymnodiufélagar eru til í ýmislegt.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan