Mælirinn við Hlíðarbraut.
Síðasta föstudag var settur upp búnaður til að telja fjölda og reikna út hlutfall bíla sem eru á nagladekkjum. Teljarinn er við gangbraut yfir Hlíðarbraut milli Hlíðarfjallsvegar og Merkigils.
Um tilraunaverkefni er að ræða og er fjöldi og hlutfall bíla á nagladekkjum metið út frá hljóði. Myndavélar láta tölvuna vita að bíll sé að nálgast fyrir hljóðgreiningu. Við þessa greiningu eru engin persónugreinanleg gögn vistuð.
Hingað til hefur hlutfall bíla á nagladekkjum einfaldlega verið metið með því að hlusta og horfa. Talningarnar hófust árið 1975 en þó var ekki talið 1979, 1983-1985, 1987, 1997 og 2000-2002. Talið hefur verið 4-5 sinnum undir lok vetrar. Á þann hátt hefur verið hægt að meta mestu notkun nagla yfir veturinn og sjá þróunina þegar skipt er yfir á sumardekk.
Með því að taka saman tíu ára tímabil má sjá að nagladekkjaskipti hefjast nú um tveimur vikum fyrr en á árum áður. Einnig að á tímabilinu 2005-2014 hafi um 60% bíla verið á nöglum yfir veturinn. Síðustu tíu ár hefur notkunin aukist og þegar talið var í mars sl. voru um 85% bíla á negldum dekkjum.
