Helga St Jónsdóttir er 100 ára í dag

Ásthildur og Helga á Dalbæ í morgun. Mynd: Ragnar Hólm Ragnarsson.
Ásthildur og Helga á Dalbæ í morgun. Mynd: Ragnar Hólm Ragnarsson.

Helga Steinunn Jónsdóttir frá Hrísey fagnar 100 ára afmæli sínu í dag. Hún fæddist á Kálfsskinni á Árskógsströnd 2. febrúar 1921. Foreldrar hennar áttu sex börn, þar af tvenna tvíbura. Bergrós tvíburasystir Helgu varð 93 ára og hálfbróðir Helgu samfeðra er Sveinn á Kálfsskinni sem er Akureyringum að góðu kunnur.

Helga kynntist verðandi eiginmanni sínum Jóhanni Ásgrími Ásmundssyni á Árskógssandi en árið 1965 fluttu þau til Hríseyjar og bjuggu þar í Syðstabæ. Þeim varð þriggja barna auðið en Jóhann lést árið 1970. Helga bjó þá áfram í Syðstabæ með dóttur sinni og 5 börnum hennar allt þar til hún fluttist á dvalarheimilið Dalbæ fyrir fáeinum árum. Helga sinnti ýmsum störfum í gegnum tíðina og vann meðal annars í frystihúsinu í Hrísey en einnig þótti hún mjög liðtæk saumakona og aðstoðaði gjarnan konur sem voru að sauma upphlut eða annað sem tengdist þjóðbúningasaumi.

Helga hefur enn lögheimili í Hrísey og er því íbúi sveitarfélagsins Akureyrarbæjar. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, heimsótti Helgu í morgun og færði henni blómvönd frá bæjarstjórn Akureyrar í tilefni dagsins. Fór vel á með þeim stöllum og hafði Helga frá ýmsu að segja, enda er hún mjög ern, hress og kát þótt heyrnin sé aðeins farin að gefa sig.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan