Hallalaus rekstur, Jethro Tull og 3.000 listamenn

Mynd: Ragnar Hólm Ragnarsson.
Mynd: Ragnar Hólm Ragnarsson.

Menningarhúsið Hof á Akureyri lýkur sínu þriðja starfsári í júní með glæsilegum tónleikum bresku rokkhljómsveitarinnar Jethro Tull og hljómsveitarmeðlimir bætast þar með í hóp þeirra nær þrjú þúsund listamanna úr öllum listgreinum sem komið hafa fram í Hofi í vetur. Framkvæmdastjóri Hofs fagnar frábærri aðsókn þriðja árið í röð og hallalausum rekstri sem fyrr. Hún segir þó enn sóknarfæri í starfseminni, meðal annars í ráðstefnu- og fundahaldi, sem mikilvægt sé að nýta enda er líklegt að það smiti út frá sér og hafi töluverð áhrif á samfélagið allt.

Jethro Tull í Hofi í júní

Meðlimir bresku sveitarinnar Jethro Tull fara yfir nær fjörutíu og fimm ára feril sinn á tónleikum 7. júní. Þetta er í fyrsta sinn sem erlendar rokkstjörnur sem þessar koma fram í Hofi og má búast við einstakri upplifun í stóra sal Hofs þegar söngvari hljómsveitarinnar Ian Anderson þenur raddböndin og dregur fram þverflautuna þess á milli. Nær uppselt er á tónleikana. Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir framkvæmdastjóri Hofs segir tónleikana frábæran endapunkt á þriðja starfsári Hofs. „Það verður gaman að taka á móti þessum gömlu jöxlum sem eru ennþá í frábæru formi. Það er virkilega skemmtilegt að þeir skuli ekki eingöngu halda tónleika á höfuðborgasvæðinu og hver veit nema fleiri alþjóðlegar stórstjörnur leggi leið sína í Hof á næstunni.”

Um þrjú þúsund listamenn

Það eru þó fyrst og fremst þeir þrjú þúsund íslensku listamenn af landinu öllu sem hafa skapað margar ógleymanlegar stundir á bæði stórum og smáum viðburðum í Hofi í vetur. „Við erum ótrúlega stolt af að hafa fengið að taka á móti öllum þessum frábæru listamönnum vetur og til að setja þetta í eitthvað samhengi má segja að þetta samsvari því að allir íbúar Norðurþings, Húsavíkur og nágrennis hafi stigið á stokk í Hofi,” segir Ingibjörg.

Ingibjörg segir það sérstaklega ánægjulegt hversu mikil fjölbreytni hefur verið í dagskránni. „Hér hafa allar helstu popp- og rokkstjörnur þjóðarinnar stigið á stokk í vetur auk Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og frábærra óperusöngvara svo eitthvað sé nefnt. Einnig hafa kórar og sönghópar af öllu landinu sungið hjá okkur í vetur.”

Glæsilegt leikhúsframboð og verðlaunasýningar

„Við erum líka afskaplega stolt af því glæsilega framboði leiksýninga sem við höfum boðið upp á í vetur. Þar á meðal eru tvær  verðlaunasýningar sem Hof bauð Norðlendingum upp á. Fyrst ber að nefna Tengdó sem var óumdeildur sigurvegari Grímunnar í fyrra. Einnig verð ég að nefna sérstaklega hina stórkostlegu verðlaunasýningu BLAM! sem var sýnd tvisvar fyrir fullu húsi. Sú sýning hefur hlotið ein virtustu leiklistarverðlaun Danmerkur en það var Akureyringurinn Kristján Ingimarsson sem var þar í forsvari. Einnig hefur yngsta kynslóðin verið dugleg að mæta á barnasýningar en þeir Gói og Þröstur Leó hafa sett hér á svið sögurnar um Eldfærin annars vegar og Baunagrasið hins vegar og svo slógu þær stöllur Skoppa og Skrítla í gegn hjá yngstu kynslóðinni. Ekki má svo gleyma öllum áhorfendunum sem hafa lagt leið sína í húsið og tekið þátt í að skapa einstakar upplifanir í Hofi í vetur því án þeirra væri þetta jú til lítils unnið,” segir Ingibjörg.

Hallalaus rekstur og sóknarfæri í ráðstefnuhaldi

Ingibjörg segir að á þeim þremur árum sem húsið hefur starfað hafi Hof sannað tilverurétt sinn og þegar horft sé yfir þessi þrjú ár sé óhætt að segja að fjölbreytni og stöðugleiki séu lykilorð yfir starfsemina. „Það hefur verið stöðugleiki í rekstrinum frá upphafi og nú þegar uppgjör þriðja starfsársins nálgast er ljóst að reksturinn gengur ennþá mjög vel og það sýnir sig enn og aftur að Akureyringar og í raun landsmenn allir kunna að meta starfsemina í Hofi.” Ingibjörg segir það í raun ævintýri líkast hversu vel hefur gengið. „Listamenn hafa frá upphafi verið mjög ánægðir með aðstöðuna í húsinu og hafa sóst eftir því að koma þar fram. Áhorfendur hafa verið einstaklega duglegir að mæta á viðburði og í raun hefur allt gengið upp.”

Ingibjörg segir að þrátt fyrir að starfsemin í Hofi sé að mörgu leyti áberandi í samfélaginu þá sé stór hluti af þeirri starfsemi sem þar fer fram sjaldnast sýnileg. „Það má eiginlega líkja starfseminni við ísjaka, það er að segja að það er í raun bara einn tíundi af starfseminni sem er sýnilegur almenningi. Það er fullt af viðburðum sem almenningur sækir og fær umfjöllun í auglýsingum og fjölmiðlum en svo er það allt hitt sem fer fram hér í húsinu. Hér eru haldnir fjöldinn allur af fundum, ráðstefnum, námskeiðum, vörukynningum, danskennslu, veislum og ýmsum athöfnum. Hér hafa einnig reglulega farið fram útvarpsútsendingar á nokkrum útvarpsrásum og hér hafa verið teknar upp auglýsingar. Nú svo má ekki gleyma starfsemi tónlistarskólans en auk hefðbundinnar kennslu eru reglulega haldnir nemendatónleikar, framhaldsprófstónleikar og aðrar skemmtilegar uppákomur.”

Ingibjörg segir það alveg ljóst að starfsemin í Hofi hefur áhrif á samfélagið allt og að það sé ekki spurning að velgengni hússins smitar út frá sér í aðra starfsemi, meðal annars í verslun og þjónustu. Þrátt fyrir að nóg sé að gera í Hofi eru enn sóknarfæri og ónýtt tækifæri fyrir starfsemina, að sögn Ingibjargar. „Við höfum verið að sækja í okkur veðrið í ráðstefnu- og fundhaldi og sá hluti starfseminnar hefur vaxið hægt og bítandi. Ég tel að þar séu enn sóknarfæri fyrir okkur og það er kannski sá hluti sem á eftir að vaxa hvað mest á næstu árum.”

Þessa dagana er unnið að skipulagningu dagskrár næsta árs í Hofi sem verður kynnt í haust og það er ljóst að von er á enn fleiri ógleymanlegum upplifunum í Hofi næsta vetur.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan