Í gær kl. 13 hófst sala á sýningar í Borgarleikhúsinu á uppsetningu Leikfélags Akureyrar á barnaleikritinu Karíus og Baktus. Gríðarleg eftirspurn var eftir miðum og í gærkvöldi höfðu rúmlega 3.000 miðar verið seldir. Þegar er algerlega uppselt á fyrstu 15 sýningarnar.
Bætt hefur verið við aukasýningum í Reykjavík sem eru komnar í sölu núna. Þó er einungis um takmarkaðan fjölda sýninga að ræða því leikararnir eru þéttsetnir, Guðjón Davíð og Ólafur Steinn leika nú í vinsælli sýningu LA á Svörtum ketti. Karíus og Baktus er eftir Thorbjorn Egner, leikstjórn er í höndum Ástrósar Gunnarsdóttur en hljómsveitin 200.000 naglbítar sá um tónlistarflutning.
Í fyrra hélt LA í leikferð til Reykjavíkur með sýninguna Fullkomið brúðkaup og þá var sett sölumet þegar rúmlega 4.000 miðar seldust fyrsta daginn. Aldrei höfðu fleiri miðar selst á einum degi í sögu LA, LR eða Borgarleikhússins. Það er því skemmtileg staðreynd að það sé aftur með samstarfi LA og LR sem svo gríðarleg sala er í húsinu.
Guðjón Pedersen leikhússstjóri Borgarleikhússins segir: „Það er mjög ánægjulegt hvað þetta hefur farið vel af stað, enda hefur Borgarleikhúsið ætið sinnt yngstu áhorfendunum af miklum krafti. Samstarf Borgarleikhússins og Leikfélags Akureyrar hefur verið mjög farsælt hingað til og verður án efa áfram.“
Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóri LA segir: „Það er auðvitað frábært að upplifa áhuga landsmanna allra á sýningunni og því sem við erum að gera í leikhúsinu hér á Akureyri. Og það er skemmtileg staðreynd að það sé aftur samstarf þessara tveggja leikhúsa sem skilar þessari afburðarsölu í Reykjavík. Við hlökkum mikið til að koma suður og kæta yngstu borgarbúana.“