Grenndargral fjölskyldunnar

Skipuleggjendur Grenndargralsins.
Skipuleggjendur Grenndargralsins.

Vafi leikur á tilvist hins heilaga grals Krists en aftur á móti leikur enginn vafi á tilvist Grenndargralsins. Það leynist á vísum stað í heimabyggð og bíður þess að ævintýrarmenn leiti það uppi. Í tilefni af 150 ára afmæli Akureyrarbæjar gefst bæjarbúum og öðrum áhugasömum tækifæri til að finna Grenndargral fjölskyldunnar. Þátttakendur leysa þrjár þrautir á jafnmörgum vikum sem allar tengjast sögu Akureyrar þar sem m.a. morðóðir draugar, skoskt gufuskip og seinheppnar systur koma við sögu. Kapphlaupið nær hámarki þegar þátttakendur fá afhenda lokavísbendingu laugardaginn 25. ágúst sem leiðir þá að gralinu. 

Gripurinn sem barist verður um á rætur sínar að rekja til Randers, vinabæjar Akureyrar í Danmörku. Ingvar Engilbertsson er hönnuður gralsins auk þess sem hann smíðar gripinn. Sigurvegararnir fá gralið afhent til eignar að leit lokinni. Hér er um að ræða sérstaka hátíðarútgáfu af grenndargralinu sem aðeins verður keppt um í þetta eina skipti. Öll lið sem klára þrautirnar þrjár fá viðurkenningarskjöl fyrir þátttökuna. 

Skipuleggjendur Grenndargralsins eru þau Brynjar Karl Óttarsson, Helga Halldórsdóttir og Sigrún Sigurðardóttir, en fyrirmynd Grenndargrals fjölskyldunnar er tilraunaverkefni í grenndarkennslu hjá nemendum í 8.-10. bekk sem hófst haustið 2008 í Giljaskóla. Verkefnið ber yfirskriftina Leitin að Grenndargralinu og þar ferðast nemendur um bæinn og kynnast sögu heimabyggðar í gegnum skemmtilegar og spennandi vettvangsferðir og rannsóknarleiðangra. Haustið 2011 hófu sex grunnskólar á Akureyri þátttöku. . 

Leitin hefst miðvikudaginn 1. ágúst kl. 12:00 þegar fyrsta þraut fer í loftið. Allt sem þarf að gera er að fara á heimasíðu Leitarinnar að grenndagralinu www.grenndargral.is, finna fyrstu þraut og fylgja fyrirmælum sem þar koma fram. 

Allir geta tekið þátt, jafnt ungir sem aldnir. Engin takmörk eru fyrir því hversu margir skipa þátttökuliðin og þannig geta fjölskyldur, vinnustaðir eða vinahópar tekið sig saman og myndað lið. Ekki þarf að skrá lið til þátttöku. Hægt er að hefja þátttöku hvenær sem er á tímabilinu 1.-24. ágúst. Hvorki þarf að tilkynna sérstaklega þegar lið hefur þátttöku né ef það kýs að draga sig úr keppni. 

Nálgast má upplýsingar um framkvæmd og leikreglur á heimasíðu Leitarinnar að grenndargralinu www.grenndargral.is og á facebook-síðu Grenndargralsins

Mikilvægar dagsetningar: 

miðvikudagur 1. ágúst kl. 12:00: Fyrsta þraut birtist á grenndargral.is
miðvikudagur 8. ágúst kl. 12:00: Önnur þraut birtist á grenndargral.is
miðvikudagur 15. ágúst kl. 12:00: Þriðja þraut birtist á grenndargral.is
fimmtudagur 23. ágúst kl. 00:00: Réttar úrlausnir við þrautunum komnar til umsjónarmanna
laugardagur 25. ágúst: Lokavísbending birt – gralið fundið??? 

Bæjarbúar eru hvattir til að taka þátt í skemmtilegum ratleik í góðra vina hópi og upplifa gleði og sorgir Akureyringa fyrr á tímum með því að heimsækja vettvang spennandi atburða í sögu bæjarins.

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan