Hjólað í Innbænum. Mynd: María Helena Tryggvadóttir.
Íþrótta- og ólympíusamband Íslands og samtarfsaðilar ræsa verkefnið "Göngum í skólann" miðvikudaginn 6. september. Þetta er í sautjánda sinn sem blásið er til verkefnisins hér á landi og hefur þátttaka aukist jafnt og þétt.
Meginmarkmiðið er að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. Börnin eru frædd um ávinning reglulegrar hreyfingar og um leið dregið úr umferðarþunga, mengun og hraðakstri nálægt skólum. Auk þess er reynt að stuðla að vitundarvakningu fyrir virkum ferðamáta og umhverfismálum og því hversu gott það er að ganga. Er þetta verkefni meðal annars unnið í samstarfi við Ríkislögreglustjóra og ætlar lögreglan að auka sýnileika sinn í kringum skólana á þessum degi.
Á síðasta ári tóku milljónir barna frá 40 löndum víðs vegar um heiminn þátt í verkefninu "Göngum í skólann" með einum eða öðrum hætti. Grunnskólarnir á Akureyri eru þar engin undantekning og hafa í gegnum árin tekið virkan þátt í því. Þetta árið eru allir grunnskólar Akureyrarbæjar skráðir til leiks en áður en verkefnið hefst munu öll grunnskólabörn fá afhent endurskinsmerki að gjöf frá Akureyrarbæ til að auka sýnileika í umferðinni. Þá eru skólar einnig hvattir til að vera með ýmis konar uppákomur eða fróðleik í september í tengslum við verkefnið.
Foreldrar og forráðamenn eru hvattir til að sýna gott fordæmi og taka virkan þátt í verkefninu með því að fylgja börnunum gangandi eða hjólandi í skólann.
Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á vef þess www.gongumiskolann.is.