Glettur á N4 tilnefndar til Eddunnar

Gísli Sigurgeirsson í Glettum.
Gísli Sigurgeirsson í Glettum.

Sjónvarpsþátturinn Glettur á N4 hefur verið tilnefndur til Eddunnar í flokki frétta- eða viðtalsþátta. Umsjónarmaður þáttarins er Gísli Sigurgeirsson, tæknimenn Elvar Guðmundsson, Árni Þór Theodórsson, Ágúst Ólafsson og Hjalti Stefánsson.

„Mér þykja þetta að sjálfsögðu ákaflega gleðileg tíðindi. Þetta er mikill heiður fyrir  mig persónulega og samstarfsfólk mitt á N4, auk þess sem tilnefningin er mikil viðurkenning fyrir stöðina sjálfa sem er þessa dagana í mikilli sókn,“ segir Gísli Sigurgeirsson, dagskrárgerðarmaður.

„Þetta er í fyrsta sinn sem þáttur á N4 er tilnefndur til Edduverðlaunanna og erum við að sjálfsögðu ákaflega stolt af því að Glettur hafi hitt í mark hjá nefndinni,“ segir Þorvaldur Jónsson framkvæmdastjóri N4.

Alls voru 102 verk send inn á hátíðina, þar af 17 heimildarmyndir, 60 sjónvarpsefnisverk og 25 verk í flokknum leikið efni. Aðrir þættir sem tilnefndir eru í flokki frétta- eða viðtalsþátta eru Kastljós, Landinn, Málið og Neyðarlínan. Edduverðlaunin verða veitt í Hörpunni þann 16. febrúar.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan