Frá afhendingu gjafarinnar.
Í tilefni af 150 ára afmæli Akureyrarkaupstaðar færðu sveitarfélögin í Eyjafirði og Þingeyjarsveit bænum að gjöf eina
milljón króna til að opna "Ljósmyndavef Akureyrar". Fulltrúar sveitarfélaganna afhentu gjöfina formlega á miðvikudag. Sveitarfélögin
eru Dalvíkurbyggð, Eyjafjarðarsveit, Fjallabyggð, Grýtubakkahreppur, Hörgársveit og Svalbarðsstrandarhreppur í Eyjafirði og Langanesbyggð,
Norðurþing, Skútustaðahreppur, Svalbarðshreppur, Tjörneshreppur og Þingeyjarsveit í Þingeyjarsýslu.
Gjöfinni fylgdi kvæðið Akureyri eftir Erlu Guðjónsdóttur (1932-2003).
Akureyri laðar lokkar,
ljúfar myndir renna hjá.
Bótin, þorpið, börnin okkar,
brjóstið fyllist ljúfri þrá.
Bærinn, brekkan innan Eyri,
bjarmi morgunsólu frá.
Er sem hörpu óma heyri
hljóður vindur bærir strá.
Glerá leikur stillt á strengi
stefin um hinn milda blæ.
Ég minnist þín svo lengi lengi
er ljóðahörpu mína slæ.
Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri: Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir oddviti
sveitarstjórnar Hörgársveitar, Jón Hrói Finnsson sveitarstjóri í Svalbarðsstrandarhreppi, Guðný Sverrisdóttir sveitarstjóri
í Grýtubakkahreppi og Geir Kristinn Aðalsteinsson forseti bæjarstjórnar Akureyrar.