Sundlaug Akureyrar. Ljósmynd: Kristófer Knutsen.
Ákveðið hefur verið að framlengja gildistíma sundkorta um þann tíma sem lokað hefur verið vegna Covid-19 sem eru 21 dagur. Bæjarráð samþykkti á síðasta fundi tillögu þess efnis frá frístundaráði með fimm samhljóða atkvæðum.
Gildir þetta um svokölluð tímabilskort; 3 mánaða, 6 mánaða og 12 mánaða kort sem fólk hefur ekki getað notað til fulls á árinu 2021 vegna lokana í sundlaugum sveitarfélagsins af völdum faraldursins.
Er þetta liður í fjölbreyttum mótvægisaðgerðum Akureyrarbæjar vegna Covid-19 sem gripið hefur verið til undanfarið ár.
Áður hafði gildistími sundkorta verið framlengdur um 40 daga vegna þess tíma sem sundlaugar voru lokaðar á haustmánuðum 2020.