Fyrirtæki á Akureyri styðja Vernharð

 

Stofnaður hefur verið bakhjarlahópur Vernharðs Þorleifssonar júdókappa frá Akureyri með það að markmiði að gera honum kleift að einbeita sér að íþrótt sinni og æfa og keppa við bestu aðstæður fram yfir Ólympíuleikana 2004.

 

Fjölmörg fyrirtæki á Akureyri mynda bakhjarlahópinn og greiða fasta upphæð til Vernharðs mánaðarlega. Í bakhjarlahópnum eru Bónus, Hagkaup, 10-11, Greifinn, Íslensk verðbréf, KEA, Sparisjóður Norðlendinga, Útgerðarfélag Akureyringa, Blikkrás og Norðurmjólk. Auk þessara fyrirtækja ber að nefna Kj. Kjartansson hf. íþróttavörudeild sem sér honum fyrir íþróttafatnaði, Skrín sem hýsir heimasíðu Vernharðs, Radionaust sem útvegar honum tölvu og myndbandstökuvél og Fremri kynningarþjónusta sem hefur annast undirbúning og kynningu á bakhjarlahópnum. Nokkur fyrirtæki á Akureyri hafa stutt Vernharð með þjónustu við hann en það eru (Myndrún (ljósmyndun), Ásprent/POB (umbrot) og Pedromyndir (myndvinnsla). Síðast en ekki síst ber að geta þess að Vernharð fær myndarlegan fjárstyrk frá Akureyrarbæ

 

Vernharð hyggst vera í góðu sambandi við starfsfólk áðurgreindra fyrirtækja sem og aðra aðdáendur sína og stuðningsmenn hvort sem hann er við æfingar eða á keppnisferðum erlendis. Í því skyni er nú unnið að uppsetningu heimasíðu Vernharðs þar sem hann ætlar að upplýsa um gang mála hjá sér við æfingar og keppni. Heimasíðan verður væntanlega komin í loftið um mánaðamótin. Slóðin er www.vennijudo.com.

 

Allur undirbúningur Vernharðs að undanförnu og næstu misserin miðast við keppni á Ólympíuleikunum í Aþenu 2004 en áður en að þeim kemur glímir hann á fjölmörgum stórmótum, meðal annars tveimur Evrópumótum og einu heimsmeistaramóti.

Nú er um hálft ár þangað til úrtökumótin fyrir Ólympíuleikana 2004 hefjast. Undirbúningur Vernharðs fyrir þau mót er forgangsverkefni næstu mánaða og munu allar hans æfingar miðast við úrtökumótin og síðan í beinu framhaldi Heimsmeistaramótið sem haldið verður í Japan á næsta ári þar sem Vernharð hefur sett stefnuna á verðlaunasæti. Vernharð æfir nú af kappi á Akureyri og undirbýr sig fyrir átökin á komandi keppnistímabili sem hefst í byrjun október.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan