Nú er hægt að skrá sig á sérstakan póstlista til að fá vikulegan tölvupóst sem sendur verður út á föstudögum og greinir frá helstu framkvæmdum í Móahverfi og stöðu mála þar. Það er verkfræðistofan Mannvit sem hefur umsjón og eftirlit með framkvæmdum og mun sjá um útsendingu á svokölluðum föstudagspóstum til þeirra sem skrá sig HÉR.
Af ýmsum ófyrirséðum ástæðum, m.a. vegna lagningar háspennustrengs Landsnets um hverfið, má reikna með að einhver seinkun verði á afhendingu lóða í 1. áfanga Móahverfis en til stóð að fyrstu lóðir yrðu afhentar í maí 2024. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hversu mikil seinkunin verður en beðist er velvirðingar á því óhagræði sem þetta kann að valda.
Þessa dagana er unnið við kaldavatnsstofnlögn, svokallaðar Vaglalagnir, sem í dag liggja í gegnum verðandi Móahverfi en leggja þarf nýjar lagnir sem verða undir göngustíg sem liggur samsíða Borgarbrautinni. Einnig er unnið að því að grafa fyrir götu- og lagnastæði í Borgarbraut. Í framhaldinu verður unnið að jarðvegsskiptum í Borgarbraut og Langamóa.