Listamaðurinn er ein af myndum hátíðarinnar.
Alliance française í Reykjavík, sendiráð Frakklands á Íslandi og Græna ljósið kynna Franska kvikmyndahátíð sem
verður haldin í 12. sinn dagana 27. janúar til 9. febrúar í Háskólabíói í Reykjavík og 17. til 20. febrúar
í Borgarbíói á Akureyri.
Franska kvikmyndahátíðin er annar stærsti kvikmyndaviðburður Íslands, næst á eftir Alþjóðlegu
kvikmyndahátíðinni í Reykjavík. Árlega sækja um 10.000 gestir frönsku kvikmyndahátíðina sem er fyrsti stóri
menningarviðburður ársins í Reykjavík. Það er Alliance française í Reykjavík sem skipuleggur hátíðina í samvinnu
við Græna ljósið, Institut français og sendiráð Frakklands á Íslandi. Eins og verið hefur er fjölbreytnin í fyrirrúmi
á franskri kvikmyndahátið og það breytist ekki í ár. Sýndar verða ýmsar tegundir gæðakvikmynda frá Frakklandi, auk mynda
frá frönskumælandi svæðum utan Frakklands, s.s. Québec og Tchad. Að þessu sinni er sérstök áhersla lögð á kvikmyndir
eftir kvenleikstjóra.
Þetta er í þriðja sinn sem Franska kvikmyndahátíðin teygir anga sína til Akureyrar og að þessu sinni verða fleiri myndir sýndar
norðan heiða en áður hefur verið.