Mynd: Ragnar Hólm Ragnarsson.
Ákveðið var á fundi bæjarstjórnar Akureyrar á þriðjudag að falla frá fyrirhugaðri hækkun á vistunargjöldum
(frístund) í grunnskólum bæjarins en áður hafði bæjarráð lagt til að vistunargjöld í leikskólum hækkuðu
ekki. Með þessu vill bæjarstjórn sýna enn frekar í verki vilja sinn til að vinna gegn aukinni verðbólgu í landinu og standa með
barnafjölskyldum í bænum eins og kostur er. Nauðsynlegt er þó vegna aukins kostnaðar við aðföng og innkaup á matvælum og aukins
rekstrarkostnað almennt að hækka verð á skólamáltíð í grunn- og leikskólum.
Þrátt fyrir þessa hækkun á skólamáltíðum er samanburður við önnur sveitarfélög sem Akureyringar bera sig gjarnan
saman við sveitarfélaginu ennþá hagstæður. Þannig er verð á skólamáltíð á Akureyri nú 395 kr. en 416 kr.
í Hafnarfirði, 440 kr. í Kópavogi og 428 kr. í Garðabæ, svo dæmi séu tekin. Ennfremur má ekki gleyma því að á
Akureyri er ókeypis í strætó á Akureyri sem er barnafjölskyldum mjög til hagsbóta, bókasafnsskírteini eru einnig ókeypis sem og
að leggja bílum í miðbænum.