Friðarhlaupið kom til Akureyrar í dag og tóku Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri, Hlín Bolladóttir, formaður
samfélags- og mannréttindaráðs og Halla Björk Reynisdóttir, formaður bæjarráðs, á móti hlaupurunum við Eymundsson kl. 09.30
í morgun. Eftir skemmtilegt spjall hljóp Hlín með friðarkyndilinn ásamt hlaupurunum og krökkum úr leikjaskóla KA upp Listagilið.
Hópurinn staðnæmdist svo við Andapollinn þar sem Hlín gróðursetti sérstakt friðartré.
Friðarhlaupið, eða Sri Chinmoy Oneness-Home Peace Run, eins og það nefnist á ensku, er alþjóðlegt kyndilboðhlaup sem fer fram í öllum
heimsálfum ár hvert. Hlaupið var stofnað árið 1987 og er kennt við indverska friðarfrömuðinn Sri Chinmoy. Friðarhlaupið í ár
hófst 20. júní síðastliðinn og stendur fram til föstudagsins 12. júlí. Það er 16 manna alþjóðlegur hópur
hlaupara sem ber logandi friðarkyndil á milli byggða til að gefa öllum landsmönnum tækifæri á að taka þátt í viðburði
sem hefur að leiðarljósi hugsjónir sáttar og samlyndis.