Franska kvikmyndahátíðin er hafin á Akureyri

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri, Guillaume Bazard sendiherra og Heimir Örn Árnason forseti bæjars…
Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri, Guillaume Bazard sendiherra og Heimir Örn Árnason forseti bæjarstjórnar.

Áhugafólk um franska menningu lét sig ekki vanta á opnunarmynd Frönsku kvikmyndahátíðarinnar á Akureyri sem hófst í gær í Sambíóunum. Sendiherra Frakklands á Íslandi Guillaume Bazard og Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri sögðu nokkur orð áður en sýningin hófst.

Fyrr um daginn höfðu þau hist ásamt Heimi Erni Árnasyni, forseta bæjarstjórnar, og Renaud Durville menningarfulltrúa franska sendiráðsins til að ræða tengsl þjóðanna, núverandi samstarf á ýmsum sviðum og frekari möguleika sem í því felast.

Í gær var á dagskrá fransk-íslenska kvikmyndin Grand Marin eða Sjókonan eftir Dinara Drukarova sem sýnd var við góðar undirtektir. Þrjár sýningar eru framundan: 

  • Þriðjudaginn 14. febrúar verður verðlaunateiknimyndin Calamity sýnd í Amtsbókasafninu á Akureyri. Þar er á ferðinni gullfalleg og spennandi teiknimynd fyrir yngri kynslóðina um æsku og uppvöxt Calamity Jane, sem síðar varð goðsögn í villta vestrinu!
  • Daginn eftir þann 15. febrúar verður sýnd grínhrollvekjan Cuopez! eða Final Cut! í Sambíóunum. Stórkostleg gamanmynd þar sem hópur kvikmyndagerðarmanna lendir í kröppum dansi í tökum á lítilli uppvakningamynd. Coupez! var opnunarmynd Cannes kvikmyndahátíðarinnar 2022 er endurgerð á bíómyndinni One Cut of the Dead.
  • Sunnudaginn 19. febrúar verður lokamynd hátíðarinnar sýnd í Listasafninu á Akureyri en þar er um að ræða verðlaunaheimildarmyndina Les Invisibles. Ellefu karlar og konur sem ólust upp í Frakklandi á millistríðsárunum og eiga ekkert sameiginlegt annað en að vera samkynhneigð, segja frá reynslu sinni af forpokuðu samfélagi sem í rauninni hafnaði tilvist þeirra. Reynsla fólksins afhjúpar þau ljón sem voru í veginum þegar það reyndi að lifa sínu eðlilega lífi. Ástúðleg og hreinskilin frásögn.

Nánari upplýsingar um hátíðina er að finna á halloakureyri.is.

Franska kvikmyndahátíðin er haldin í samstarfi við Bíó Paradís og skipulögð af sendiráði Frakklands á Íslandi, Alliance Francaise de Reykjavík, Institut Francais, Sambíóunum Akureyri og Akureyrarbæ.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan