Franska kvikmyndahátíðin á Akureyri

Franska sendiráðið á Íslandi, Akureyrarbær, Borgarbíó og Græna ljósið kynna Frönsku kvikmyndahátíðina sem haldin verður í þriðja sinn í Borgarbíói á Akureyri, 1.-3. febrúar.

Opnunarmyndin í ár er Ryð og bein, eftir Jacques Audiard. Myndin hefur verið lofuð af hinum ýmsu miðlum í Frakklandi og víðar um lönd og fengið gríðarlega góða aðsókn. Kvikmyndin fjallar um viðkvæmni mannlegs lífs og höfðar auðveldlega til ólíkra hópa. Í aðalhlutverki er Marion Cotillard sem hlaut Óskarsverðlaun árið 2008 fyrir einstaka túlkun sína á Edith Piaf í myndinni La Môme. Á móti henni leikur Belginn Matthias Schoenaerts. Cotillard leikur unga og aðlaðandi konu sem býr við fötlun eftir slys. Persóna Schoenaerts er af allt öðrum meiði en hann leikur fátækan, einstæðan föður. Þvert á þær línur sem aðskilja þau hreyfa þau við hvort öðru og mynda einstök bönd. Myndinni hefur verið líkt við Intouchables sem sló nýlega í gegn á Íslandi en hún fjallar um tvo einstaklinga sem tengjast böndum þrátt fyrir að vera af gjörólíkum félagslegum og fjárhagslegum bakgrunn.

Ást er mynd sem aðdáendur góðra kvikmynda mega ekki missa af. Hér eru á ferðinni Jean-Louis Trintignant og Emmanuelle Riva, tvær goðsagnir franskra kvikmynda, í fallegri sögu um ástina þegar ævinnar sól hnígur til viðar. Myndin hefur sópað að sér verðlaunum og hlaut m.a. Gullpálmann í Cannes síðasta vor, er tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta erlenda myndin, auk þess sem Emmanuelle Riva er tilnefnd fyrir bestan leik í aðalhlutverki. Leikstjóri er Michael Haneke.

Grínið á hátíðinni er að sjálfsögðu á sínum stað en Jarðarförin hennar ömmu ætti að kitla hláturtaugarnar, jafnvel hjá þeim brúnaþyngstu.

Yngsta kynslóðin mun fylgjast hugfangin með tveimur börnum uppgötva töfra mýrarinnar í myndinni Griðastaður en myndin er eins konar blanda af náttúrlífsmynd og fjölskyldu- og barnamynd.

Vert er að vekja athygli á því að mennta- og háskólanemar frá miðann á 700 kr. við framvísun skólakorts.

Frekari upplýsingar má finna á vefsíðunni facebook.com/franskabio.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan