Formlegu sumarstarfi Vinnuskóla Akureyrar lauk í gær 12. ágúst. Um 400 ungmenni á aldrinum 14-15 ára störfuðu hjá Vinnuskólanum í sumar og 25 flokkstjórar voru þeim til halds og traust.
Veður var með besta móti í sumar og er óhætt að segja að það hafi bókstaflega leikið við starfsfólk Vinnuskólans sem gerði störf þeirra auðveldari fyrir vikið. Eitt besta sumar í manna minnum.
Ýmsar stofnanir og einstaklingar komu með fræðslu og forvarnir til að brjóta upp daginn, þar á meðal lögreglan, Eining-Iðja, Vistorka, Vinnumálastofnun, Rauði krossinn og Ungmennaráð Akureyrarbæjar.
Lögð var rík áhersla á að veita nemendum jákvæða og uppbyggilega innsýn í atvinnulífið, byggja upp vinnuvirðingu, skapa trausta og sterka liðsheild og veita unglingum Vinnuskólans fjölbreytileg tækifæri til að fræðast um bæinn og nágrenni hans.
Vinnuskólinn sá að öllu leyti um rakstur, hreinsa beð, snyrta umhverfi okkar og önnur tilfallandi verkefni sem íbúar og aðrir voru duglegir að koma á framfæri.
Það er ósk okkar að viðhalda jákvæðri ímynd Vinnuskólans og bjóða upp á eftirsóknarvert starf. Ungmennin hafa fengið mikið hrós í sumar og hefur komið til tals að bærinn hafi aldrei verið jafn vel hirtur og núna. En alltaf má gott bæta og er það einmitt stefnan að ári.
Að lokum vill starfsfólk Vinnuskólans þakka bæði ungmennum og flokkstjórum sérstaklega fyrir vel unnin störf.