Uppátækjum Hymnodiu eru engin takmörk sett. Nú fer kórinn um Eyjafjörð og Þingeyjarsýslur með fjölbragðadagskrá, syngur,
spilar á alls kyns skrýtin og skemmtileg hljóðfæri, hefur uppi glens og grín, leikræn tilþrif og jafnvel dans ef vel liggur á.
Jóðlandi sálfræðingurinn, drynjandi geðlæknirinn, fljúgandi Hollendingurinn, sænski grunnskólakennarinn, lagvissi
lögfræðingurinn, tölvuóði trompetleikarinn og margir fleiri koma fram.
Hljóðfærin sem notuð verða eru skemmtileg blanda: Fiðla, gítar, kassabassi, íslenskt handsmíðað strumstick, rúmenskur
dúlsímer, psalterium, charango, harmóníum, virginall, þrjár ólíkar afrískar trommur, pikkolóflauta okkarína, bakú,
tyrkneskt þurrkað ávaxtahýði, fjórar tónkvíslar, ryðgaða bárujárnsplatan, stóra sænska sálmabókin,
nokkrar mismunandi tréhristur, taívönsk basthrista, cajon, stompbox, gyðingaharpa, brjóstkassar á tenórum, kínverskar bjöllur, franskur
hertrompet, íslenskar varir, þríhorn, dragspil, handsmíðuð sauðabeinsflauta frá Kalmar, fjörugrjót úr Eyjafirði, blómavasar
kórstjórans, bjöllur búnar til úr gaskútum, rauðvínsglös Loga og Öbbu, strákústur Sveins kirkjuvarðar og græn
verkfærataska sem hljómar eins og sneriltromma á sterum.
Tónleikarnir verða á eftirfarandi stöðum:
31. október: Tjarnarborg Ólafsfirði kl. 20
4. nóvember: Menningarhúsið Hof Akureyri kl. 20
6. nóvember: Siglufjarðarkirkja kl. 20
8. nóvember: Gamli bærinn í Reynihlíð, Mývatnssveit, kl. 20
9. nóvember: Þórshafnarkirkja kl. 16
9. nóvember: Félagsheimilið Mikligarður Vopnafirði kl. 20
10. nóvember: Safnahúsið Húsavík kl. 16
14. nóvember: Þorgeirskirkja kl. 20
Miðaverð er 1.500 kr. Ókeypis fyrir 16 ára og yngri.
Menningarráð Eyþings styrkir verkefnið.