„Þetta tveggja ára átak snýst um að gera Eyjafjörð betur sýnilegan fyrir þann fjölda fyrirtækja sem eru í
framkvæmdum, námu- og olíuvinnslu á norðurslóðum. Nú þegar eru um 30 stór verkefni í burðarliðnum eða komin á
laggirnar á Grænlandi,“ segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags
Eyjafjarðar.
Meðal þátttakenda í verkefninu nú þegar eru Slippurinn, Rafeyri, Norlandair, Arctic Maintenance, Eimskip, Hafnarsamlag Norðurlands, Akureyrarbær og
Sjúkrahúsið á Akureyri. Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar mun leiða verkefnið og segir Þorvaldur Lúðvík að í
næstu viku verði haldinn opinn kynningarfundur, tilgangur hans sé að bjóða öllum til þátttöku í verkefninu.
„Samfélagið við fjörðinn er öflugt, innviðirnir eru þróaðir, alþjóðasamgöngur og fyrirtaks sjúkrastofnanir.
Hefðir í ýmsum atvinnugreinum eru ríkar, þannig að ég tel að við séum vel í stakk búin til að þjónusta
þessi umsvif. Þá er landfræðileg staða okkar þannig að við erum með nærtækasta þjónustukjarnann sem þörf er
á fyrir þessa starfsemi. Auk þess er áratuga reynsla eyfirskra fyrirtækja og sjúkrahússins í þjónustu við Grænland
góður grundvöllur að byggja á.“
Forsvarsmenn átaksins benda á að opnun norðursiglingarleiðarinnar milli heimsálfa muni valda straumhvörfum í heimsviðskiptum þegar fram
í sækir. Byggja þurfi upp mikla þjónustu við þá siglingaleið, svo sem björgunarþjónustu og ýmiss konar flugstarfsemi.
„Okkar hugmynd er sú að fleiri hendur lyfti þyngra hlassi með samstilltu átaki, fremur en að hver og einn sé að hreyfa við minni björgum,
þanng að ég er bjartsýnn á þetta tveggja ára verkefni,“ segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson.
Frétt af Vikudagur.is.