Mynd tekin af efsa.is.
Íslandsdeild EFSA (European Federation of Sea Anglers) stendur fyrir Evrópumeistaramóti í strandstangveiðum í Eyjafirði dagana 24.-29. september.
Akureyrarbær er gestgjafi þessa fyrsta móts sinnar tegundar sem haldið er hér á landi.
Sextíu og sex veiðimenn frá átta Evrópulöndum taka þátt í mótinu. Löndin eru Holland,
Þýskaland, Gíbraltar, England, Skotland, Wales, Írland og Ísland. Veitt verður á ýmsum stöðum við Eyjafjörð og
m.a. meðfram Drottningarbrautinni – allt frá Höepfnersbryggju að Torfunefsbryggju – á morgun, þriðjudag, á fyrsta veiðidegi
mótsins.
Keppt verður í karla- og kvennaflokki, unglingaflokki og flokki eldri veiðimanna í tveggja og fjögurra manna sveitum auk þess sem þjóðirnar tefla
fram landsliðum sínum. Að þessu sinni sendir Ísland tvö fimm manna landslið, A- og B-landslið, skipuð konum og körlum.
Keppnin felst í að veiða sem flesta fiska yfir ákveðinni lágmarksstærð og sá hefur vinninginn sem flest stig hlýtur fyrir fiskafjölda
og samanlagða lengd fiska.
Strandstangveiðar eru lítið stundaðar á Íslandi en standa á gömlum merg í flestum öðrum Evrópulöndum og
því er það mikill heiður fyrir Íslandsdeild EFSA að halda mótið. Vonast er til að mótið og umfjöllun um það efli
þessa skemmtilegu grein stangveiðiíþrótta á Íslandi.
Nánari upplýsingar má finna á efsa.is.