Eru nagladekkin nauðsynleg?

Hægt er að velja úr ýmsum tegundum vetrarhjólbarða.
Hægt er að velja úr ýmsum tegundum vetrarhjólbarða.

Nú þegar nóvember er genginn í garð má búast við því að margir bifreiðaeigendur hugi að því að skipta yfir á vetrardekk. Akureyrarbær vill hvetja þá sem mögulega geta til þess að velja vistvæna kosti í þeim efnum.

Nagladekkin eiga sinn þátt í svifryki, auk þess að valda hávaða og slíta malbiki hraðar en önnur dekk með tilheyrandi auknum viðhaldskostnaði.

Erfiðlega gengur að draga úr notkun þeirra, en síðustu ár hafa að jafnaði um þrír af hverjum fjórum bifreiðaeigendum á Akureyri ekið á negldum hjólbörðum. Umferðartalning á götum bæjarins 24. október leiddi í ljós að um fjórðungur ökutækja hafi verið kominn á nagladekk, jafnvel þótt aðstæður hafi ekki gefið tilefni til þess.

Ýmsar aðrar tegundir vetrarhjólbarða eru í boði sem hafa mismunandi áhrif á umhverfið og eru flestir sammála um að gæði þeirra hafi aukist mikið á undanförnum árum. Má þar nefna loftbóludekk, harðskeljadekk, harðkornadekk og heilsársdekk með djúpu mynstri.

Akureyrarbær leggur áherslu á að draga úr svifryki og mengun sem af því stafar, til dæmis með því að sópa og þvo götur í ríkari mæli en áður og bjóða upp á gjaldfrjálsar almenningssamgöngur. Íbúar eru beðnir um að meta hvort þeir geti lagt sitt af mörkum, ýmist með því að draga úr notkun einkabílsins eða velja aðrar tegundir hjólbarða en nagladekk og stuðla þannig að bættum loftgæðum og minni hávaða á Akureyri.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan