Ertu ungskáld?

Minnt er á að skilafrestur í ritlistasamkeppni Ungskálda 2020 rennur út á miðnætti mánudaginn 16. nóvember nk. Verkum skal skila á netfangið ungskald@akureyri.is og verða úrslit tilkynnt á Amtsbókasafninu fimmtudaginn 3. desember kl. 17.

Hér er tilvalið tækifæri fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25 ára á Norðurlandi eystra til að koma verkum sínum á framfæri. Vegleg peningaverðlaun eru veitt fyrir þrjú efstu sætin.

Engar hömlur eru settar á hvers konar textum er skilað inn, hvorki varðandi efnistök né lengd. Textarnir þurfa að vera á íslensku og mælt er með því að þeim sé skilað á PDF eða Word formi.

Síðustu ár hefur verið haldin ritlistasmiðja á vegum verkefnisins en ákveðið var að slá hana af að þessu sinni til að sýna ábyrgð í verki, bregðast við tilmælum sóttvarnalæknis og þróun Covid-19 faraldursins í samfélaginu.

Markmiðið með Ungskáldum er að efla ritlist og skapandi hugsun hjá ungu fólki á aldrinum 16-25 ára. Verkefnið hófst árið 2013 og hið eina sinnar tegundar á landinu.

Í nefnd Ungskálda eru fulltrúar frá Akureyrarstofu, Verkmenntaskólanum á Akureyri, Menntaskólanum á Akureyri, Ungmennahúsinu í Rósenborg og Amtbókasafninu

Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra og Akureyrarbæ.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan