Frístundastyrkinn má meðal annars nota til að greiða fyrir vetrarkort í Hlíðarfjall.
Akureyrarbær hefur á þessu ári greitt um 86 milljónir króna í frístundastyrki vegna þátttöku barna í íþrótta- og tómstundastarfi. Tæplega 3.300 börn á aldrinum 6-17 ára eiga rétt á frístundastyrk sem nemur 40 þúsund krónum á hvern iðkanda.
Þar með hefur um 65% af mögulegum frístundastyrkjum ársins verið ráðstafað, en ef allir myndu nýta styrkinn að fullu næmi niðurgreiðsla sveitarfélagsins um 131 milljón króna.
Vetrartöflur í íþróttum og tómstundum hafa í mörgum tilvikum tekið gildi og því er tilvalið að athuga möguleika á niðurgreiðslu.
Frístundastyrkurinn hefur verið hækkaður jafnt og þétt síðustu ár um leið og nýtingarmöguleikum hefur verið fjölgað. Markmiðið er að öll börn njóti góðs af styrknum og því eru foreldrar hvattir til að kynna sér málið. Einfalt er að ráðstafa upphæðinni – hér eru nánari upplýsingar.
