Talsvert hefur snjóað á Akureyri í nótt og í morgun samhliða hvössum vindi úr norðri. Fyrir vikið er færðin innanbæjar sums staðar þung, sérstaklega inni í hverfum.
Snjómokstur á Akureyri hófst klukkan fimm í morgun og er öll áhersla fyrst um sinn lögð á stíga, stofnbrautir og strætisvagnaleiðir. Reiknað er með að veðrið gangi niður með kvöldinu og í kjölfarið verður hafist handa við að hreinsa aðra bæjarhluta. Mokstur er sömuleiðis hafinn í Hrísey.
Hér má sjá helstu upplýsingar um vetrarþjónustu og vinnureglur í tengslum við snjómokstur. Í kortasjá Akureyrarbæjar eru einnig upplýsingar um fyrirkomulag snjómoksturs og með því að haka í „Vetrarþjónusta“ í stikunni til hægri má til dæmis sjá hvaða leiðir njóta forgangs.
Eins og Akureyringar vita þá tekur allt aðeins lengri tíma á svona dögum og þá er mikilvægt að hafa jákvæðni og þolinmæði að vopni.