Í tilefni þess að 50 ár eru liðin frá fyrstu sýningu Minjasafnsins á Akureyri heldur safnið í sýningarför um
Eyjafjörð undir yfirskriftinni Hér á ég heima. Alls verða settar upp fjórar sýningar í þeim sveitarfélögum sem safnið
eiga. Á sýningunum er lögð áhersla á ljósmyndir og gripi frá viðkomandi sveitarfélagi.
Fyrsta sýningin opnar í dag, fimmtudag, kl. 20 í Leikhúsinu að Möðruvöllum í Hörgársveit. Auk ljósmynda og merkisgripa
úr Hörgársveit verða sýndar kvikmyndir úr fórum Sverris Haraldssonar úr Skriðu sem teknar voru á 8. og 9. áratug
síðustu aldar.
Í tengslum við sýninguna vill safnið efla varðveislu á myndum úr einkaeigu því í fjölskyldualbúmum geta leynst myndir sem
ættu heima á safni. Á morgun, föstudag, á milli kl. 13 og 17 verður Hörður Geirsson, ljósmyndasérfræðingur Minjasafnsins á
Akureyri, í Leikhúsinu að Möðruvöllum og tekur stafræn afrit af myndum.
Aðgangur á allar sýningarnar er ókeypis og nánari upplýsingar má sjá HÉR.