Mynd frá sýningunni Verkfærið.
Um þessar mundir standa yfir margar fjölbreyttar og skemmtilegar listasýningar á Akureyri og í næsta nágrenni. Segja má að
Aðalheiður S. Eysteinsdóttir hafi riðið á vaðið þegar hún fyrr í sumar opnaði fjölda sýninga í Listagilinu sem unnar
eru með þátttöku listamanna af svæðinu og marka hápunktinn í dagskrá Sjónlistamiðstöðvarinnar á árinu.
Umfjöllunarefnið er íslenska sauðkindin og menning henni tengd þar sem markmiðið er að byggja brú á milli listsköpunar og raunveruleikans.
Í vikunni hefur verið boðið upp á leiðsögn um sýningarnar og mun Aðalheiður sjálf leiða gesti á fimmtudag, föstudag og
laugardag kl. 14. Þess má geta að þann 4. ágúst næstkomandi mun hljómsveitin Hjálmar spila við eina af sýningunum og
Aðalheiður mun í kjölfarið fremja gjörning en dagskráin verður auglýst nánar síðar. HÉR má sjá nánari upplýsingar um sýningarnar.
- Á Amtsbókasafninu má sjá sýningu á myndverkum eftir Guðlaug Arason. Sýningin samanstendur af litlum bókaskápum fullum af
þekktum en örsmáum íslenskum og erlendum bókum. Hver bókaskápur er heimur útaf fyrir sig og þar búa bæði skáld og
ýmsar kynjaverur. Bækurnar kallar Guðlaugur álfabækur og segja má að um nýja tegund myndlistar sé að ræða. HÉR má sjá nánari upplýsingar.
- Í Verksmiðjunni á Hjalteyri, rétt utan Akureyrar, hafa listakonurnar Elísabet Brynhildardóttir, Guðrún Benónýsdóttir og
Selma Hreggviðsdóttir sett upp sýninguna Verkfærið sem fjallar um húsnæðið sjálft; gömlu Síldarverksmiðjuna á Hjalteyri.
Í texta sýningarinnar segir: „Það fer varla framhjá neinum sem kemur á Hjalteyri hversu þung og yfirgnæfandi verksmiðjan er líkt og
kastali eða virki. Síldarverksmiðjan er þó ekki einungis bygging, heldur verkfæri. Ekki bara hús með fjórum útveggjum heldur er
öll byggingin hugsuð með ákveðið hlutverk í huga. Hver veggur, súla, lúga og op hefur einhvern ákveðinn tilgang, eitthvert
ákveðið notagildi. Innsetning okkar í rými verksmiðjunnar er „monument“ um sköpunarsögu þessa hús, ferlið
og framkvæmdirnar sem beitt var við verkið. Kastalinn sem rís í myrkrinu stendur sem minnisvarði ákveðins þensluástands sem myndast
við framkvæmdir stórra drauma.“ HÉR má sjá
nánari upplýsingar um sýninguna.
- Sýningin Gróska fer fram í sal Myndlistarfélagsins en eftirfarandi listamenn sýna þar verk sín: Auður Björnsdóttir, Bergdís
Guðnadóttir, Birgir Rafn Friðriksson, Björg Atladóttir, Charlotta Sverrisdóttir, Doron Elíasen, Guðrún Hreinsdóttir, Gunnella
Ólafsdóttir, Gunnar Gunnarsson, Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir, Íris Kristjánsdóttir, Jóhanna Hreinsdóttir, Klara Björg
Gunnlaugsdóttir, Lilja Bragadóttir, Laufey Jensdóttir, Margrét Jónsdóttir, Margrét Kolka Haraldsdóttir, Thulin Johansen, Vigdís
Bjarnadóttir, Vilborg Gunnlaugsdóttir og Þóra Einarsdóttir. Salur Myndlistarfélagsins er staðsettur í Listagilinu, Kaupvangsstræti 10, 2.
hæð og er opinn virka daga kl. 09.30-15.30 og um helgar kl. 14-17.
- Sænska myndlistarkonan Helen Molin sýnir í Mjólkurbúðinni í Listagilinu og ber sýningin yfirskriftina Háfleygt. Þar sýnir
Helen 300 mynda seríu sem hún vann með blandaðri tækni í grafík prenti og vatnslitum. Hún fjallar um stað sem ekki á sér tíma
eða rúm og eru myndirnar fantasíur þar sem fólk og fuglar eru í aðalhlutverki. Um sýninguna segir listakonan: „Verkin mín eru sögur
eða sagnir án orða. Þau innihalda hvorki fortíð né framtíð heldur eru tímalaus í núinu, tímabilið að innan,
að utan og á milli. Veröldin þar sem barnslegt ímyndunarafl og þroskuð reynsla fullorðinna mætast og flýgur hátt og hefur vængi.
Þar sem hvorki tíminn né orðin eru og þú flýgur hærra og hærra.“ Nánari upplýsingar má sjá HÉR.
Þess má að lokum geta að á næstkomandi laugardag, 27. júlí, kl. 14.00 opnar kanadíska myndlistarkonan Carol Bernier sýningu í
Populus tremula. Bernier, sem dvelur í Gestavinnustofu Gilfélagsins, er fædd, menntuð og búsett í Montreal í Kanada, en hefur iðkað list
sína og haldið sýningar víða um lönd. Nú sýnir hún verk sem sækja innblástur til íslenskrar náttúru og
umhverfis. Sýningin verður einnig opin á sunnudag kl. 14.00-17.00 en aðeins þessa einu helgi. Nánari upplýsingar um listakonuna má sjá á
heimasíður hennar, carolbernier.com.