Endurnýtt ljósmynd frá 1962

Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings og Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Akureyrar með…
Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings og Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Akureyrar með ljósmyndina góðu af Húsavík sem Óli Páll tók, líklega sumarið 1962. Mynd af heimasíðu Norðurþings.

Í gær hélt Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri til fundar við Kristján Þór Magnússon sveitarstjóra Norðurþings og færði sveitarfélaginu Norðurþingi að gjöf forláta litaða ljósmynd af Húsavík. Myndin hafði verið gefin Akureyrarbæ árið 1962 í tilefni þess að þá voru 100 ár liðin frá því Akureyri fékk kaupstaðaréttindi.

Á myndinni eru tveir silfurskildir og í annan þeirra er grafin áletrunin:

„Yngsti kaupstaður Norðurlands, Húsavík, árnar elzta kaupstaðnum, Akureyri, höfuðstað Norðurlands, allra heilla á aldarafmæli kaupstaðarréttinda hans. 29. ágúst 1962. Bæjarstjórn Húsavíkur".

Í innrömmuðu skjali sem fylgdi gjöf Akureyrarbæjar til Húsavíkur og Norðurþings stendur orðrétt:

„Elsti kaupstaður Norðurlands, Akureyri, árnar yngsta kaupstaðnum, Húsavík, allra heilla á 70 ára afmæli kaupstaðarréttinda hans 1. janúar 2020.

Sveitarfélögin eru bæði í fararbroddi þegar kemur að endurvinnslu og endurnýtingu. Því er við hæfi að Akureyrarbær endurnýti gjöf sem bæjarstjórn Húsavíkurkaupstaðar færði Akureyri, höfuðstað Norðurlands, á aldarafmæli kaupstaðarréttinda Akureyrar 29. ágúst 1962. Þessari fallegu ljósmynd verður vonandi fundinn góður staður í Stjórnsýsluhúsi Norðurþings á Húsavík þar sem hún mun sóma sér hið besta.

Með árnaðaróskum og þökkum fyrir blómlegt og gott samstarf."

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan