Ein með öllu…og við fögnum afmæli!

Ljósmynd: Þórhallur Jónsson
Ljósmynd: Þórhallur Jónsson

Akureyringar taka með opnum örmum á móti gestum og gangandi um verslunarhelgina á fjölskylduhátíðinni Ein með öllu…og við fögnum afmæli! Mikil áhersla er lögð á fjölbreytta dagskrá og að allir finni eitthvað við sitt hæfi. Hátíðin hefst fimmtudaginn 2. ágúst næstkomandi með útitónleikum N4 og nær hámarki sunnudagskvöldið 5. ágúst með flugeldasýningu af Pollinum og Sparitónleikunum á Samkomuhúsflötinni. Í tilefni 150 ára afmælis Akureyrar munu blöðrur skipa ákveðinn sess á Sparitónleikunum.

Fjöldi dagskrárliða hafa fest sig í sessi á síðustu árum og má þar nefna Óskalagatónleika Eyþórs Inga og Óskars Péturssonar í Akureyrarkirkju, Kirkjutröppuhlaupið, Mömmur og möffins í Lystigarðinum og Dynheimaballið. Af nýjum dagskrárliðum er vert að nefna viðburð sem ber yfirskriftina “Pabbar og pizzur” þar sem pabbar bæjarins láta ljós sitt skína á sama tíma og þeir styrkja málefni Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis.

Helstu söngbarkar þjóðarinnar munu ekki láta sig vanta til Akureyrar og fram koma m.a. Jón Jónsson, Eyþór Ingi, Dúndurfréttir, XXX Rottweiler hundar, Hjálmar, Steindi JR, Skytturnar, hljómsveitin Bravó, Papar, Páll Óskar Hjálmtýsson, Sálin hans Jóns míns, Hvanndalsbræður, Mannakorn, Ingó veðurguð og fleiri.

Auk ofangreindra atriða verður boðið upp á skautadiskó, flóamarkað, ævintýralandið að Hömrum, fjölskyldudagskrá á Ráðhústorgi, tívolí, söngkeppni unga fólksins og margt fleira. Dagskrá hátíðarinnar í heild sinna má finna á einmedollu.is og á facebook.com/einmedollu.

Það eru Vinir Akureyri í samvinnu við Akureyrarstofu sem standa fyrir Einni með öllu…og við fögnum afmæli! og eru helstu bakhjarlar Norðlenska, Vífilfell og sjónvarpsstöðin N4.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan