Mynd: Hörður Geirsson.
Draugar, draugahús, dularfull hljóð, drungalegir tónar og dulúðug stemning, er meðal annars það sem gestir og gangandi munu upplifa frá
Samkomuhúsinu og inn eftir Innbænum, elsta hluta bæjarins, næstkomandi föstudagskvöld, 30. ágúst kl. 22.30-23.30 í Draugaslóð
Akureyrarvöku.
Í ár hefst slóðin í Samkomuhúsinu sem Leikfélag Akureyrar hefur breytt í draugahús. Þar munu gestir ferðast um rangala
leikhússins, hitta ýmsar kynjaverur og fá reimleikann beint í æð. Tilkomumikil gandreið á vegum hestamannafélagsins Léttis verður
á flötinni neðan við húsið. Leikmynd þessa kyngimagnaða kvölds endar þó ekki þar því leiðin frá
Samkomuhúsinu og inn eftir Innbænum verður sveipuð dulúð og drungalegheitum þar sem örlitlar ljóstýrur munu lýsa upp garða,
hús og stræti. Það verður því erfitt að gera greinarmun á verum þessa heims og annars sem líða mun um garða og port í
eilífri leit að sálum sínum og annarra.
Draugaslóðin er að þessu sinni í umsjón Akureyrarvöku í afar góðu samstarfi við Minjasafnið á Akureyri og Leikfélag
Akureyrar. Eftirtaldir aðilar gera þetta kyngimagnaða kvöld að því sem það er: Starfsfólk Minjasafnsins og Leikfélags Akureyrar
ásamt leikurum og nemendum leiklistaskóla LA, Hestamannafélagið Léttir, Leikfélag Hörgdæla, Leikklúbburinn Saga, Vættir,
Leikklúbbur Rósenborgar ásamt frábærum sjálfboðaliðum og síðast en ekki síst magnaðir íbúar Innbæjarins.
Vert er að benda á að Draugaslóðin gæti skotið ungum börnum og viðkvæmum sálum skelk í bringu.