Frá framleiðslu taupokana.
Í kvöld, miðvikudagskvöld, kl. 20.00-22.00 fer fram lokakvöld Bleika októbermánaðarins og Dömulegra dekurdaga á Icelandair Hótel
Akureyri. Þar mun Dóróthea Jónsdóttir lesa úr bók sinni Bleikur barmur sem fjallar um baráttuna við brjóstakrabbamein.
Fulltrúar frá Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis verða á svæðinu með svokallað brjóstavesti sem konur geta prófað til
að þjálfa sig í leitinni að brjóstakrabbameini. Séra Hildur Eir Bolladóttir flytur hugvekju í tilefni dagsins og Mareka kvartettinn syngur
nokkur lög. Einnig verður flutt atriði úr gamanleiknum Ég var einu sinni frægur þar sem leikararnir Gestur Einar Jónasson, Aðalsteinn Bergdal og
Þráinn Karlsson taka höndum saman. Síðast en ekki síst verður afhentur styrkur til Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis. Sá styrkur
varð til þegar skipuleggjendur Dömulegra dekurdaga ákváðu í samvinnu við grafíska hönnuðinn Bryndísi Óskarsdóttur,
listakonurnar á vinnustofunni 10AN og nema við listnámsbraut Verkmenntaskólans á Akureyri að framleiða taupoka tileinkaða Dömulegum
dekurdögum.
Aðgangseyrir er kr. 1.500 sem rennur óskiptur til Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis. Miðasala er í afgreiðslu Icelandair Hótel Akureyri.