Café Björk í Lystigarðinum.
Menningarverðlaun DV voru afhent í 34. sinn í Iðnó í Reykjavík í dag. Verðlaunin voru veitt í 9 flokkum, þar á meðal
fyrir arkitektúr og hlaut akritektastofan Kollgáta á Akureyri verðlaun fyrir kaffihúsið í Lystigarðinum, Café Björk, en verkkaupi var
Akureyrarbær. Dómnefnd skipuðu Helgi Steinar Helgason arkitekt FAÍ formaður, Borghildur Sölvey Sturludóttir arkitekt FAÍ og Baldur Ólafur
Svavarsson arkitekt FAÍ.
Umsögn dómnefndar hljóðar svo:
"Kaffihúsið er í Lystigarði Akureyrar og hefur verið á skipulagi garðsins um árabil eða allt frá stofnun hans fyrir 80 árum.
Húsið er reist á vegum Akureyrarbæjar og er gjöf hans í tilefni þessa afmælis. Það er vandasamt verk að koma fyrir nýbyggingu
í þessu gróna umhverfi. Það hefur höfundum verksins þó tekist vel. Húsið stendur áreynslulaust upp við aðalstíginn sem
liggur í gegnum garðinn, umkringt gömlum og nýjum gróðri, grasflötum og útilistaverkum.
Byggingin nær góðu samtali við umhverfi sitt en galdurinn er m.a. fólginn í þeim góðu hlutföllum sem hún er byggð
á, efnisnotkuninni og gegnsæinu. Sóttur er innblástur úr gömlu timburhúsunum sem standa fyrir í garðinum með sínum litlu
bíslögum. Byggingarefni eru rammíslensk, sjónsteypa, báruál og lerkiviður. Það sem vekur óneitanlega mesta athygli eru opnir,
glerjaðir gaflar sem brotnir eru upp með gluggapóstum sem minna á trjástofna. Þeir skapa heild og samspil milli þess manngerða og þess
náttúrulega."