Mynd: Karl Eskil/Vikudagur.
„Áhættan eykst alltaf til muna á þessum tíma og við sjáum að útköll hjá okkur aukast yfirleitt í desember og
þá sérstaklega í tengslum við bruna eða óhöpp sem verða af völdum jólaljósa af ýmsu tagi,“ segir Þorbjörn
Guðrúnarson slökkviliðsstjóri hjá Slökkviliði Akureyrar. „Aðkoman að heimilum þar sem orðið hefur eldsvoði er afskaplega
dapurleg, brunaleifar, sót og stundum algjör eyðilegging á húsnæði og í ofanálag hefur fólk oft tapað persónulegum munum eins
og myndum og jafnvel horfum við upp á ópnaðar gjafir undir jólatré.“
Á liðnum árum hefur margoft orðið stórtjón af völdum bruna sem rekja má til rafmagns. Stundum má rekja íkveikju til bilunar,
enn algengara er þó að gáleysi í umgengni við rafmagn sé um að kenna. Á aðventu er kveikt á enn fleiri ljósum en alla
jafna og með hættur sem því er samfara í huga ætti fólk að fara vandlega yfir þann ljósabúnað sem það hyggst nota til
að skreyta híbýli sín, bæði innan- og utandyra.
Ofhlaða ekki tengla með endalausum fjöltengjum
Þorbjörn segir að skreytingum sem tengjast jólum, bæði rafmagnstengdum og einnig kertaskreytingar fylgi aukin áhætta og alltaf geti eitthvað
farið úrskeiðis. Hann hvetur fólk því til að fara með gát. „Við bendum fólki sérstaklega á að gæta
að rafmagnstengingum á seríum og einnig að ofhlaða ekki einstaka tengla með endalausum fjöltengjum,“ segir hann. Varðandi kertaskreytingar
þurfi menn að gæta að því skraut komist ekki í snertingu við kertaloga. „Það er gleðilegur tími framundan,
hátíð ljóss og friðar og því er ástæða til að hvetja bæjarbúa til að fara gætilega með ljósa- og
kertaskreytingar á heimilum sínum yfir hátíðirnar. Það er góð regla að fara auka yfirferð um húsnæðið
áður en farið er úr húsi eða gengið til náða,“ segir Þorbjörn.
Jósep Sigurjónsson rafvirki hjá Norðurorku bendir á nokkur atriði sem vert er fyrir bæjarbúa að hafa í huga nú þegar
aðventa gengur í garð og flestir huga að jólaskreytingum. Nefnir hann m.a. að inniljósaseríur megi aldrei nota utandyra, slíkt getur hreinlega
verið lifshættulegt. Öll jólaljós sem ætluð er til nota úti við eiga að vera sérstaklega merkt. „Það er líka
rétt að benda fólki á að láta logandi kerti aldrei standa ofan á raftækjum, eins og sjónvarpi eða hljómflutningstækjum,
kertið getur brætt sér leið niður í tækið og kveikt í því,“ segir Jósep og bætir við að þess séu
nokkur dæmi.
Hendið gömlu ljósunum
Jósep brýnir einnig fyrir bæjarbúum að henda gömlum og úr sér gegngum jólaljósum, en vilji fólk af einhverjum
ástæðum nýta t.d. eldri jólaseríur borgi sig að láta fagmann yfirfara ljósin, leiki grunur á að þau séu í
ólagi. „Stundum reyna menn að gera við þetta sjálfir, en viðvaningsleg viðgerð býður hættunni heim,“ segir hann.
„Það er líka mikilvægt, að nota alltaf ljósaperur af réttri gerð, stærð og styrkleika, því ef þess er ekki
gætt getur ofhitnun orðið og hún leitt til íkveikju,“ segir Jósep. Þá þykir honum einnig vert að benda á að
varasamt sé að hafa ljós á jólatrjám logandi yfir nótt eða þegar íbúar eru að heiman.
Engin jólaljós alveg örugg
„Það eru engin jólaljós svo örugg að hægt sé að útiloka íkveikju af þeirra völdum,“ segir hann og bætir
við að rafljós geti ekki síður en kertaljós verið varasöm, þau geti sem dæmi kveikt í gluggatjöldum og þurfi fólk að
gæta varúðar gagnvart t.d. jólastjörnum og öðru pappírsskrauti sem sett er utan um ljósaperur. „Það er stór
hætta á ferðum ef ljósapera liggur við brennanlegt efni eins og pappír,“ segir Jósep.
Hann bendir fólki á að fara vel yfir ljósabúnað nú í upphafi aðventu og ganga úr skugga um að allt sé í lagi, m.a.
þurfi umsvifalaust að skipta um brotnar klær og brotin perustæði , ef um slíkar bilanir er að ræða og eins að skoða vel hvort allar
rafmagnsleiðslur séu heilar og einangrun sé í lagi.
Frétt af www.vikudagur.is.