Mynd: Auðunn Níelsson.
Breytingar standa nú fyrir dyrum á Hótel Kea og munu þær hafa talsverð áhrif á ásýnd miðbæjarins. Þar auki er
akureyrska fyrirtækið Keahótel að færa út kvíarnar og mun innan tíðar opna nýtt hótel í Reykjavík sem verður
það þriðja sem Keahótel reka í höfuðborginni. Nýja hótelið heitir Reykjavík Lights og er að Suðurlandsbraut 12. Samtals
verða þá sex hótel innan vébanda fyrirtækisins. Hönnunarstjóri og arkitekt verkefnisins er Helga Lund.
"Það eru ákaflega spennandi tímar framundan hjá Hótel Kea. Við erum að ráðast í miklar breytingar á
móttökuhæð hótelsins auk þess sem að Hamborgarafabrikkan opnar á jarðhæðinni," segir Páll L. Sigurjónsson,
framkvæmdarstjóri og einn eigenda Keahótela.
"Hugmyndafræðin á bak við hönnun Hótel Kea er tímalaus og endurspeglar hlýlegan og klassískan stíl þess. Hönnunin þarf
að standast væntingar til framtíðar og vera jafn fáguð að 20 árum liðnum. Þá þarf hún að höfða til
íslendinga jafnt sem erlendra ferðamanna. Helstu breytingarnar felast í því að settur verður nýr bar og "lounge" þar sem nú er
gestamóttaka hótelsins. Jafnframt verður útisvæði tengt veitingstaðnum þar sem hægt verður að njóta veitinga á einu
sólríkasta horni miðbæjarins. Einnig verður sérsniðið nýtt konsept fyrir veitingastað og bar. Það er heiður að fá
þetta verkefni til okkar þar sem að Hótel Kea er eitt af kennileitum Akureyrar," segja hönnuðir verksins en þau eru Hallgrímur Friðgeirsson
innanhússarkitekt og Friðrika Hjördís Geirsdóttir.
Á nýja hótelinu í Reykjavík verða 105 vel útbúin herbergi, bar, fundarsalur og veitingastaður og yfirbyggð bílageymsla.
Hótelið er afar vel staðsett við útivistar- og íþróttasvæðin í Laugardalnum og eins gagnvart miðbænum.
 |
 |
Hótel Kea - "lounge".
|
Hótel Kea, útisvæði.
|
 |
 |
Hamborgarafabrikkan séð úr Hafnarstræti.
|
Reykjavík Lights.
|