Blað brotið í sögu Hríseyjar

Theo, Ivan, Micho og Everest fyrir utan Brekku í Hrísey þar sem þeir búa a.m.k. fyrst um sinn.
Theo, Ivan, Micho og Everest fyrir utan Brekku í Hrísey þar sem þeir búa a.m.k. fyrst um sinn.

Fjórir afrískir flóttamenn hafa sest að í Hrísey í kjölfar samnings sem Akureyrarbær gerði við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið um samræmda móttöku flóttafólks á þessu ári. Samþykkt var að sveitarfélagið taki á móti allt að 350 flóttamönnum sem geta auðgað samfélagið og víkkað sjóndeildarhring heimamanna.

Þetta er í fyrsta sinn sem Hríseyingar taka á móti flóttafólki og má því segja að blað sé brotið í sögu eyjarinnar. Nýju Hríseyingarnir eru Everest og Ivan frá Úganda, Micho frá Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó og Theobald frá Rúanda sem hafa beðið í um þrjú ár eftir að fá hér landvistarleyfi. Nú hefja þeir nýtt líf í Hrísey og fara að vinna hjá Hrísey Seafood á allra næstu dögum.

Fjórmenningarnir hafa hver sína sögu að segja og eiga að baki erfiða reynslu á flótta. Hríseyingar vilja taka vel á móti þessum nýju eyjarskeggjum, bjóða þá velkomna og sýna þeim hvernig samfélagið í Hrísey getur staðið saman og verið til staðar fyrir þá eins og aðra.

"Þeir hafa áhuga á að taka þátt í samfélaginu, kynnast okkur og lífinu í Hrísey svo að heilsa, stoppa og spjalla á förnum vegi er kærkomið," segir á heimasíðu Hríseyjar.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan