Fimmtudaginn 1. september lögðu fulltrúar stjórnar í verkefninu Hrísey, perla Eyjafjarðar leið sína til Hríseyjar. Sól skein í heiði og það var bjart yfir Hríseyingum í orðsins fyllstu merkingu. Verkefnið var hluti af samstarfsverkefni Byggðastofnunar, Akureyrarbæjar, SSNE og heimamanna undir hatti Brothættra byggða.
Tilgangur ferðarinnar var m.a. að heyra hljóðið í heimamönnum og sjá hver framvindan hefur verið eftir að Byggðastofnun dró sig út úr verkefninu í lok árs 2019. Einnig var við þetta tækifæri afhentur styrkur til þróunarverkefna í Hríseyjarskóla að upphæð 2.329.920 kr. Um var að ræða fjármuni sem ekki höfðu nýst í verkefnum í fyrri úthlutunum í verkefninu Hrísey, perla Eyjafjarðar.
Þórunn Björg Arnórsdóttir, skólastjóri, sagði gestunum frá skólastarfinu og sýndi þeim skólann. Hún greindi einnig frá þróunarverkefni sem styrkurinn mun nýtast í m.a. til kaupa á svokölluðu Bambagróðurhúsi auk þess sem áformað er að verja hluta fjármunanna í kaup á tæknibúnaði til þjálfunar nemenda í tæknigreinum. Veðrið lék við nemendur og kennara og fór skólastarfið fram úti við að hluta til.
Sjá nánar á heimasíðu Byggðastofnunar.