Baraflokkurinn á níunda áratugnum.
Hin goðsagnakennda hljómsveit Baraflokkurinn heldur tónleika á Græna hattinum í kvöld, föstudagskvöld, kl. 22.00. Einnig mun
hljómsveitin koma fram á Afmælistónleikunum í Gilinu annað kvöld kl. 21.00 ásamt Skriðjöklum, 200.000 naglbítum og
Hvanndalsbræðrum. Baraflokkurinn mun spila lög af plötum sveitarinnar sem komu út á árunum 1981-1983.
Annað kvöld kl. 23.00 verða sérstakir tónleikar helgaðir Iceland Airwaves á Græna hattinum þar sem fram koma hljómsveitirnar Kiriyama
Family og Mammút og er aðgangur ókeypis.
Elektró-popp-kvintettinn Kiriyama Family var stofnaður árið 2008 en nafnið er komið úr japönsku skáldsögunni Battle Royale eftir Koshun
Takami. Á dögunum kom út fyrsta breiðskífa Kiriyama Family sem er samnefnd sveitinni og hefur lagið Weekends notið mikilla vinsælda á öldum
ljósvakans undanfarnar vikur og sat um tíma á toppi vinsældarlista Rásar 2. Hljómsveitina skipa; Jóhann V. Vilbergsson, Karl M. Bjarnarson,
Víðir Björnsson, Guðmundur Geir Jónsson og Bassi Ólafsson.
Hljómsveitin Mammút sigraði Músíktilraunir árið 2004 og hefur síðan vakið sívaxandi athygli og telst án vafa ein af
athyglisverðustu hljómsveitum landsins í dag. Mammút hefur hlotið einróma lof fyrir tónleika sína, m.a. frá David Fricke hjá Rolling
Stone tímaritinu, hinu þekkta breska tónlistarriti Music Week og bresku vefsíðunni Playlouder.com. Hljómsveitin er um þessar mundir við upptökur
á nýrri plötu og því ekki ólíklegt að ný lög fái að hljóma á tónleikunum.
Iceland Airwaves tónleikarnir hefjast kl. 23.00 og er ókeypis aðgangur.