Akureyrarbær auglýsir eftir þróunaraðilum um uppbyggingu á lóðunum Austurbrú 10-12 og Hafnarstræti 80 á besta stað í miðbæ Akureyrar.
Í gildandi deiliskipulagi er gert ráð fyrir hóteli á lóð Hafnarstrætis 80 og íbúðum á lóð Austurbrúar 10-12. Mögulegt er að breyta skipulagi til þess að mæta hugmyndum þróunaraðila, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Nauðsynlegt er að leysa bílastæðaþörf innan lóðar og þá er einnig gert ráð fyrir að skilmálar um fjölda hæða verði óbreyttir.
Stefnt er að blandaðri byggð t.d. með íbúðum á efri hæðum og verslunar- og þjónusturýmum á jarðhæð.
Lóðirnar eru auglýstar í samræmi við ákvæði um hugmyndasamkeppni í reglum um lóðaveitingar. Það felur í sér að úthlutun byggist á mati skipulagsráðs á þeim umsóknum sem berast.
Sérstaklega verður horft til eftirfarandi þátta:
• Hversu vel fyrirhuguð uppbygging er talin styrkja og bæta miðbæjarmynd Akureyrarbæjar.
• Samræmi við yfirbragð aðliggjandi byggðar og tenging við nærumhverfi.
• Samspil við gildandi skipulag.
• Umhverfisvæn uppbygging (svansvottun, orkunotkun, hjólreiðalausnir, hleðslulausnir).
• Fyrirhugaður uppbyggingarhraði þannig að báðar lóðirnar verði byggðar upp hið fyrsta.
• Fjárhagslegur og faglegur styrkur til að takast á við verkefnið.
• Reynsla af sambærilegum uppbyggingarverkefnum.
Nánari upplýsingar um umsóknargögn og mat á umsóknum er að finna hér og almennar upplýsingar um lóðirnar eru að finna hér.
Eingöngu er hægt að sækja um rafrænt í gegnum þjónustugátt á heimasíðu bæjarins (Umsóknir – Skipulagsmál – umsókn um byggingarlóð).
Umsóknarfrestur er til 4. nóvember 2020.