Aukið félagsstarf og heilsuefling eldri borgara

Félagsmiðstöð eldri borgara í Bugðusíðu.
Félagsmiðstöð eldri borgara í Bugðusíðu.

Akureyrarbær stendur fyrir sérstökum verkefnum í sumar til að auka félagsstarf og stuðla að heilsueflingu eldri borgara í sveitarfélaginu. Boðið er upp á fjölbreytta þjónustu við flestra hæfi og er markmiðið að rjúfa félagslega einangrun og koma fólki aftur af stað eftir erfitt tímabil.

Margt eldra fólk hefur einangrast á þeim tíma sem heimsfaraldurinn og samkomutakmarkanir hafa geysað, enda hefur félagslíf og skipulagðir viðburðir verið af mjög skornum skammti.

Bærinn sótti því um og fékk styrk frá félagsmálaráðuneytinu vegna tveggja viðbótarverkefna í tengslum við félagsstarf eldri borgara í sumar.

Annars vegar á að stuðla að heilsueflingu fyrir 60 ára og eldri með gjaldfrjálsum viðburðum og æfingum af ýmsum toga, svo sem gönguferðum, útileikfimi og jóga, og efla félagsmiðstöðvastarfið í Víðilundi og Bugðusíðu. Hins vegar á að auka félagslega þátttöku þeirra sem eldri eru með skjásamtölum við fagaðila og aukinni upplýsingamiðlun um það sem þeim stendur til boða. Sérstök áhersla verður lögð á að ná til fólks sem hefur einangrast félagslega, ræða við það, kynna þeim tilboð og þjónustu og hvetja til hreyfingar og þátttöku í tómstundum.

 

Nánari upplýsingar um heilsueflingu og félagsstarf eldri borgara veitir Bjarki Ármann Oddsson, forstöðumaður tómstundamála, í netfanginu bjarkiao@akureyri.is. 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan